„Skrýtin samningatækni hjá Vodafone“

Núverandi höfuðstöðvar Vodafone að Skútuvogi og Helgi S. Gunnarsson, forstjóri …
Núverandi höfuðstöðvar Vodafone að Skútuvogi og Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins.

Vodafone ætlar að flytja höfuðstöðvar sínar í Fálkahúsið svokallaða að Suðurlandsbraut. Vodafone telur sig eiga kröfu á Reginn vegna galla og skorts á viðhaldi á núverandi húsnæði að Skútuvogi. Forstjóri Regins hafnar þessu og telur ásakanirnar ómaklegar.

Vodafone greindi frá fyrirhuguðum flutningum í tilkynningu til Kauphallar fyrir skömmu. Þar segir að samningar hafi náðst við Eik fasteignafélag um 4.700 fermetra skrifstofurými að Suðurlandsbraut 8.

Leigusamningur Vodadone um núverandi höfuðstöðvar að Skútuvogi 2 er uppsegjanlegur með 12 mánaða fyrirvara. 

Í tilkynningunni segist Vodafone ekki gera ráð fyrir að til greiðslu kostnaðar vegna leigulokanna muni koma sökum þess að Vodafone telur sig eiga kröfur á hendur Reginn vegna galla og skorts á viðhaldi. „Óvissa er um hvernig þeim viðræðum lyktar og hugsanlegt er að ágreiningur Vodafone og Regins hf. þar að lútandi verði leystur fyrir dómstólum, með tilheyrandi óvissu um málalok,“ segir í Kauphallartilkynningu Vodafone.

„Í versta falli yrðu neikvæð fjárhagsleg áhrif á afkomu Vodafone um 70 m verði að engu leyti tekið tillit til beinna og óbeinna krafna félagsins,“ segir Vodafone.

Vodafone greindi frá viðhaldsskorti í Kauphallartilkynningu.
Vodafone greindi frá viðhaldsskorti í Kauphallartilkynningu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hafnar þessu alfarið

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins, hafnar yfirlýsingu Vodafone alfarið. „Öllu viðhaldi hefur verið vel sinnt í þessu húsi og unnið í fullu samstarfi við þau,“ segir hann.

„Það er mjög skrýtið að birta svona í Kauphöll,“ segir Helgi. 

Vodafone hefur leigt húsnæðið í tíu ár en á síðustu mánuðum hafa komið upp smávægilegir lekar að sögn Helga. Hann segir Reginn hafa sinnt þeim. 

„Fyrir tveimur vikum vorum við í viðræðum við Vodafone um framhaldsleigu á þessu húsnæði. Það er nú ekki meira að því en það,“ segir Helgi. „Það er bara verið að reyna koma sér út úr samning með skrýtnum aðferðum að mínu mati.“

Leigan var of há

Helgi segir að Vodafone og Reginn hafi ekki náð saman um leiguverð og því hafi félagið leitað annað. „Þeir vildu fá lægri leigu en við vorum tilbúnir að bjóða. Það er grunnurinn að þessu,“ segir hann. Aðspurður hvort leigan hafi verið hækkuð segir Helgi að Vodafone hafi þvert á móti verið boðin lægri leiga. „Þeir vildu bara fá meiri lækkun,“ segir hann.

„Þetta er skrýtin samningatækni þar sem villandi og rangar upplýsingar eru settar fram í fjölmiðlum,“ segir Helgi. „Það er verið að ýja að því í Kauphöll að við höldum ekki við húsnæðinu okkar. Manni finnst leiðinlegt að ósannar fullyrðingar séu settar fram með þessum hætti.“

Helgi segir leigulokin ekki vera stórmál fyrir Reginn og er félagið tilbúið með annan leigutaka. Ekki hefur þó verið gengið frá samningum og er því ekki hægt að gefa upp um hvern ræðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK