Tólf ára komst inn í tvo háskóla

Taji Abraham ásamt undrabörnum sínum, Tanishq og Tiöru.
Taji Abraham ásamt undrabörnum sínum, Tanishq og Tiöru. Ljósmynd af Facebook

Hinn tólf ára gamli Tanishq Abraham er með háleit markmið og hyggst verða læknir, vísindamaður og síðar forseti Bandaríkjanna. Hann útskrifaðist úr menntaskóla við tíu ára aldur og hefur tekið stöku námskeið á háskólastigi frá sjö ára aldri. Er hann þegar kominn með þrjár háskólagráður frá opinberum háskóla sem hann hefur sótt í Sacramento í Kaliforníu.

Í frétt CNN Money er greint frá því að Abraham hafi nýlega komist inn í UC Davis- og UC Santa Cruz-háskólana á fullum skólastyrk. Á Facebook-síðu sinni segist hann hafa tekið ákvörðun um að hefja nám í verkfræðideild Santa Cruz-skólans í haust. Abraham segist ákaflega spenntur þar sem góð rannsóknaraðstaða er við skólann.

Hefur hann mikinn áhuga á heilbrigðisvísindum og vill gera rannsóknir á því sviði. Hann hefur þó ekki tekið ákvörðun um sérhæfingu en segist bæði hafa áhuga á hjarta- og taugalækningum.

Systirin einnig bráðger

Í samtali við CNN Money segir móðir hans að Abraham hafi þroskast mjög hratt og ávallt haft mikinn áhuga á námi. Segir hún foreldrana hafa reynt að veita honum hefðbundið uppeldi og skráð hann í almennan grunnskóla. Fljótlega hafi þeim orðið ljóst að það myndi ekki ganga. Var hann því tekinn úr skóla og kláraði þá námið í heimakennslu á methraða. Segist móðir hans sjálf hafa sótt nokkur námskeið um landafræði og geimvísindi með syni sínum.

Þá segir hún að tíu ára systir hans sé einnig bráðger. Hæfileikar hennar liggja hins vegar á öðru sviði en raunvísindum og sýnir hún svipaða hæfileika í tónlist og tungumálum.

Systkinin halda úti Facebook-síðu er nefnist Tanishq & Tiara Abraham - Adventures of child prodigy/child genius en þar er hægt að fylgjast með þeim.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK