FME sektar Marel um 1,5 milljónir

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel. FME taldi að Marel þyrfti …
Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel. FME taldi að Marel þyrfti að bera hallann af því að hafa ekki athugað og unnið úr tölvupósti sem barst netfangi sem svo rækilega var haldið að fjárfestum í félaginu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stjórn Fjármálaeftirlitsins hefur sektað Marel um 1,5 milljónir króna vegna brots gegn lögum um verðbréfaviðskipti með því að hafa látið hjá líða að birta tilkynningu um breytingu á atkvæðisrétti innan lögmæltra tímamarka.

Þriðjudaginn 29. október 2014 klukkan 18:17 barst Fjármálaeftirlitinu tilkynning hluthafa í Marel um breytingu á verulegum hlut atkvæðisréttar hluthafans.

Í tilkynningunni kom fram að viðskipti með hlutabréf í Marel hefðu átt sér stað 28. október 2014 og að við viðskiptin hefði atkvæðisréttur aðilans farið undir 5%. Þar sem engin flöggunartilkynning birtist opinberlega í Kauphöllinni vegna viðskiptanna hafði Fjármálaeftirlitið samband við flöggunarskylda aðilann með tölvupósti klukkan 10:52 hinn 31. október 2014 og óskaði upplýsinga um hvort og hvenær tilkynningin hefði verið send til Marel.

Svar barst klukkan 10:55 sama dag og var það á þá leið að tilkynningin hefði verið send útgefanda á sama tíma og Fjármálaeftirlitinu.

Fjármálaeftirlitið hafði samband við regluvörð Marel með tölvupósti klukkan 11:10 hinn 31. október 2014 og beindi því til félagsins að birta flöggunartilkynninguna. Regluvörðurinn svaraði klukkan 11:45 og sagðist enga tilkynningu hafa fengið en að hann myndi kanna málið án tafar.

Flöggunartilkynningin birtist síðan í fréttakerfi Kauphallarinnar sama dag klukkan 12:03. Í samtali við regluvörðinn kom í ljós að flöggunarskyldi aðilinn hafði sent Marel tilkynninguna á netfangið investors@marel.com.

Mátti senda tilkynningu á þetta netfang

Í 87. gr. laga um verðbréfaviðskipti segir að útgefandi skuli, eins fljótt og auðið er eftir móttöku tilkynningar og eigi síðar en klukkan 12 næsta viðskiptadag eftir að tilkynningin berst honum, birta opinberlega allar upplýsingar sem er að finna í tilkynningunni.

Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins segir að við mat á því hvort fullnægjandi hafi verið að senda flöggunartilkynninguna á umrætt netfang horfði Fjármálaeftirlitið til þess að netfangið var á mjög áberandi stað á fjárfestasvæði heimasíðu Marel undir fyrirsögninni „General email“.

Þá hafi netfangið sjálft borið það með sér að vera ætlað að vera aðalnetfang í samskiptum fjárfesta við Marel.

Eins og hér stóð á hefði því ekki verið óvarlegt fyrir fjárfesta að ætla að flöggunartilkynning send á umrætt netfang kæmist til skila.

Tilkynning fjárfestisins taldist því hafa verið sannanlega send Marel 29. október 2014 og hafði hann þannig uppfyllt þá skyldu sem á honum hvíldi samkvæmt lögum.

Taldi Fjármálaeftirlitið að Marel yrði að bera hallann af því að hafa ekki athugað og unnið úr tölvupósti sem barst netfangi sem svo rækilega var haldið að fjárfestum í félaginu.

Upplýsingarnar mikilvægar öðrum fjárfestum

Við ákvörðun sektarfjárhæðar var litið til þess að brot gegn 87. gr. laga um verðbréfaviðskipti hafa þótt alvarleg. Upplýsingar um breytingar á verulegum hlut atkvæðisréttar eru taldar mikilvægar fjárfestum við ákvörðun þeirra um fjárfestingar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK