Fá brennivín og bjór í einkaþotuna

Nokkrar einkaþotur á flugvellinum í Reykjavík. Þeir sem koma við …
Nokkrar einkaþotur á flugvellinum í Reykjavík. Þeir sem koma við hér á landi fá bjór, brennivín, vatn og Bláa lóns-vörur frá Isavia og Íslandsstofu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Nú stendur til að lokka þá sem eiga leið hjá Íslandi á einkaþotum sínum til að stoppa hér á landi. Gulrótin er gjafapakki með kippu af bjór, flösku af brennivíni, kassa af vatni og vörum frá Bláa lóninu. Gjafapakkinn hefur verið í boði í tæpan mánuð en enginn hefur þegið hann. 

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, bendir á að sterkefnaðir ferðamenn séu um borð í þessum einkaþotum og því sé mikill fengur í að fá þá til landsins. Þrátt fyrir að enginn hafi þegið gjafapakkann hafa nokkrar einkaþotur komið við hér á landi á síðastliðnum mánuði. Sækja þarf sérstaklega um pakkann fyrir komu og gera má ráð fyrir að þeir sem á annað borð ferðast með einkaþotum hafi efni á að kaupa sér bjórkippu og vatnsflöskur.

Hér má sjá Tom Cruise er hann lenti á Reykjavíkurflugvelli …
Hér má sjá Tom Cruise er hann lenti á Reykjavíkurflugvelli í einkaþotu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rauði dregillinn dreginn fram

Guðni segist meðvitaður um þetta enda er hugsunin ekki síður að vekja athygli á Íslandi og koma því í fréttir. Það virðist ganga því bandaríska tímaritið Forbes fjallar meðal annars um gjafirnar í dag.

Segir Forbes að Íslendingar séu að draga fram rauða dregilinn fyrir þessa ferðamenn. „Þetta er fín leið til að koma þessu í blöðin og fá umfjöllun. Þetta vekur áhuga og býr til frétt,“ segir Guðni

Þar sem gjafapakkinn er auglýstur er vakin athygli á Bláa …
Þar sem gjafapakkinn er auglýstur er vakin athygli á Bláa lóninu, norðurljósunum og öðru íslensku. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Fáum lendingar- og þjónustugjöld auk eyðslu

Guðni bendir á að einkaþotur séu yfirleitt þannig gerðar að þær komist ekki á milli Norður-Ameríku og Evrópu án þess að þurfa að millilenda og taka bensín. Markmiðið sé að fá þær til að stoppa á Íslandi en annar vinsæll staður til millilendingar er til dæmis í Skotlandi. 

Tilboðið er í gildi á flugvöllunum í Keflavík, Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum og er það samstarfsverkefni Isavia og Íslandsstofu. Það sem Íslendingar hafa að græða eru lendingargjöld, þjónustugjöld auk eyðslunnar.

„Markmið ferðaþjónustunnar er að fá meira út úr hverjum ferðamanni og við erum að taka þátt í því,“ segir hann. Hefðbundið stopp hjá einkaflugvélum sem koma við hér á landi til að taka bensín tekur um eina klukkustund en hugsunin er að fá ferðamennina til að staldra örlítið lengur við.

Á síðunni þar sem tilboðið er auglýst er einnig vakin athygli á Bláa lóninu og ýmsu öðru sem hægt er að gera hér á landi. „Við erum að reyna kynna hversu mikið er hægt að gera á stuttum tíma. Markmiðið er að fá þetta fólk til að ferðast um landið og eyða peningum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK