Saumakonur H&M reknar vegna óléttu

Ný skýrsla varpar ljósi á aðstæður fólksins er saumar fötin …
Ný skýrsla varpar ljósi á aðstæður fólksins er saumar fötin fyrir H&M.

Skýrsla sem byggir á vitnisburðum 251 starfsmanns í saumaverksmiðjum sænska tískurisans H&M í Asíu bendir til þess að gróflega sé brotið á réttindum starfsfólksins. Konur hafa verið reknar fyrir að verða óléttar og verða fyrir kynferðislegri áreitni í vinnunni.

Tímaritið Broadly greinir frá skýrslunni sem unnin var af Asia Floor Wage Alliance en það eru samtök stéttarfélaga og samtaka er berjast fyrir réttindum starfsmanna í asíska fataiðnaðinum. 

Líkt og áður segir byggir skýrslan á viðtölum við 251 starfsmann í fataverksmiðjum H&M. Samkvæmt skýrslunni höfðu starfsmenn í ellefu af tólf verksmiðjum tískukeðjunnar í Kambódíu annaðhvort orðið vitni að því að samstarfskona væri rekin vegna þungunar eða orðið fyrir því sjálf. Þá sögðu allir fimmtíu starfsmennirnir sem rætt var við í Indlandi að þungun væri brottrekstrarsök.

Í Kambódíu sögðu starfsmenn í níu af tólf verksmiðjum fyrirtækisins að kynferðisleg áreitni viðgengist á vinnustaðnum.

AFP

Stuttir ráðningarsamningar

Í skýrslunni er bent á að starfsfólk eigi erfitt með að komast út úr þessum aðstæðum. Ráðningarsamningar séu oftast einungis gerðir til þriggja mánaða og eiga starfsmenn á hættu að samningurinn verði ekki endurnýjaður ef þeir kvarta eða biðja t.d. um veikindafrí. Þá er sama hætta fyrir hendi ef þeir ganga í stéttarfélag til að berjast fyrir betri launum. 

Starfsmenn í fataverksmiðjum keðjunnar í Kambódíu eru með 140 dollara, eða um 18 þúsund krónur, í mánaðarlaun að meðaltali, en það eru lágmarkslaun í landinu.

Talskona H&M segist meðvituð um vandamálið og segir það útbreitt í fataiðnaðinum á þessum slóðum. Fyrirtækið hafi unnið að því að bæta réttindi fólksins og bætir við að langtímasamningar fyrirtækja á borð við H&M við verksmiðjur í þessum löndum geri baráttuna auðveldari.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK