Björgólfsfeðgar oft í Panamaskjölum

Í frétt Stundarinnar kemur fram að feðgarnir Björgólfur Guðmundsson og …
Í frétt Stundarinnar kemur fram að feðgarnir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson tengjast um 50 félögum í gegnum Mossack Fonseca. mbl.is/Kristinn

Feðgarnir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson tengjast að minnsta kosti um fimmtíu aflandsfélögum í skattaskjólum sem stofnuð voru í gegnum lögfræðistofuna Mossack Fonseca í Panama.

Þetta kemur fram í umfjöllun Stundarinnar um viðskipti Björgólfsfeðga upp úr Panamaskjölunum. Umfjöllunin er unnin í samvinnu við Reykjavík Media ehf. sem heldur utan um miðlun upplýsinga upp úr Panamagögnunum á Íslandi. 

Í grein Stundarinnar segir að Björgólfsfeðgarnir séu langumsvifamestir allra íslenskra fjárfesta sem koma fyrir í Panamaskjölunum og að gögnin um þá nái aftur til ársins 2001. 

Rekið á eftir umboði

Félagið Ranpod Limited kemur ítrekað fyrir í umfjöllun Stundarinnar en samkvæmt tölvupóstum er koma fram í gögnunum var óskað eftir því að Björgólfur Guðmundsson fengi prókúruumboð fyrir félagið í nóvember 2008, um mánuði eftir hrun Landsbanka Íslands, en prókúruhafi félags getur ráðstafað eignum þess. Félagið var skráð á Bresku Jómfrúareyjunum og í eigu dóttur Björgólfs, Evelyn Bentínu Björgólfsdóttur. 

Eftir að beiðnin var lögð fram bentu starfsmenn Mossack Fonseca á að upplýsingar sem tengdu Björgólf við efnahagsbrot og fjársvik hefðu fundist við bakgrunnsathugun. Er þá væntanlega vísað til dóms er Björgólfur fékk í Hafskipsmálinu árið 1990. Virðast þeir hafa verið tregir til að veita umboðið en í síðari tölvupósti er rekið á eftir málinu og segir að málið sé aðkallandi og að viðskiptavinurinn hringi á tíu mínútna fresti. Þremur dögum síðar fengu bæði Björgólfur Thor og Björgólfur Guðmundsson prókúruumboðið. Sama dag var undirritað skjal fyrir Ranpod Limited frá Barclays-bankanum í Sviss þar sem Björgólfsfeðgum var veitt heimild til að stýra eignum félagsins í bankanum.

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson.

Eitt stærsta gjaldþrot Íslandssögunnar

Bú Björgólfs Guðmundssonar var tekið til gjaldþrotaskipta í júlí 2009. Í samtali við Stundina segist skiptastjóri þrotabús Björgólfs ekki kannast við nafnið Ranpod Limited og segir að það félag hafi ekki verið hluti af uppgjöri þrotabús Björgólfs Guðmundssonar. Skiptum á þrotabúi Björgólfs Guðmundssonar lauk árið 2014 og námu þau um 85 milljörðum króna.

Samkvæmt Panamaskjölunum veitti félagið dótturfyrirtæki fjárfestingarfélags Björgólfs Thors í Finnlandi fjögurra milljóna evra lán í október 2008. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK