„Græddum“ á falli bankanna

Í nýrri skýrslu er lagt mat á beinan útlagðan kostnað …
Í nýrri skýrslu er lagt mat á beinan útlagðan kostnað ríkissjóðs vegna falls bankanna að frádregnum tekjum og endurheimtum sem ríkissjóður hefur haft af slitabúunum og aðkomu sinni að endurreisn bankakerfisins. mbl.is

Ríkissjóður Íslands virðist hafa grætt á falli viðskiptabankanna þegar einungis litið á beinan kostnað við fall og endurreisn bankakerfisins. Frá hruninu haustið 2008 og fram að ársbyrjun 2016 hefur ríkissjóður haft af þessu hreinan ábata sem nemur um 76 milljörðum króna á föstu verðlagi ársins 2015.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu er unnin var af Dr. Ásgeiri Jónssyni og Dr. Hersi Sigurgeirssyni að beiðni fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Þar er lagt mat á beinan útlagðan kostnað ríkissjóðs vegna falls bankanna að frádregnum tekjum og endurheimtum sem ríkissjóður hefur haft af slitabúunum og aðkomu sinni að endurreisn bankakerfisins.

Næstmesti kostnaðurinn innan OECD

Í kjölfar falls bankanna þriggja í október 2008 varð ríkissjóður Íslands fyrir töluverðum beinum útgjöldum. Samkvæmt mati AGS frá árinu 2012 nam beinn heildarkostnaður ríkissjóðs vegna falls fjármálastofnana, án tillits til verðmætis yfirtekinna eigna, um 43% af vergri landsframleiðslu á tímabilinu 2008 til 2011 og var sá næstmesti allra landa innan OECD á eftir Írlandi.

Aftur á móti nam hreinn kostnaður ríkissjóðs á sama tímabili, að teknu tilliti til verðmætis yfirtekinna eigna, um 19,2% af vergri landsframleiðslu.

Dr. Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands.
Dr. Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands. mbl.is/Ómar

Allt tekið til

Í skýrslunni segir að núna fimm árum síðar hafi þessi kostnaður verið endurheimtur og gott betur.

Með endurheimtum af fjármögnun viðskiptabankanna og skattlagningu og stöðugleikaframlögum slitabúanna hafi ríkissjóður ekki aðeins endurheimt allan beinan kostnað vegna ástarbréfaviðskipta Seðlabankans, verðbréfalána ríkissjóðs, ríkisábyrgða, láns Seðlabankans til Kaupþings og falls sparisjóðanna, heldur haft hreinan ábata umfram það sem nemur um 286 milljörðum króna á verðlagi hvers árs.

Stærstur hluti kostnaðarins féll til á fyrri hluta tímabilsins, á árunum 2008 til 2012, en endurheimturnar féllu að mestu til á seinni hluta tímabilsins, á árunum 2013 til 2015. Þar af er stærstur hluti þeirra um áramótin 2015/2016.

Vegna þessa er ábati ríkissjóðs mældur á verðlagi ársins 2015 nokkuð lægri eða um 76 milljarðar króna. Sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hvers árs nemur ábatinn 2,6%, sem jafngildir um 57 milljörðum að núvirði árið 2015.

Gjaldeyrishöftin veittu Íslendingum góða samningsstöðu segir Ásgeir.
Gjaldeyrishöftin veittu Íslendingum góða samningsstöðu segir Ásgeir. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Höftin veittu okkur góða samningsstöðu

Annar skýrsluhöfundanna, Ásgeir Jónsson, telur eftir vinnuna að þrennt standi helst upp úr og hafi leitt að þessari niðurstöðu: neyðarlögin, einkaeign bankanna og gjaldeyrishöftin. 

„Neyðarlögin eru grundvöllur að þessum árangri og setning þeirra hefur reynst gott veganesti,“ segir hann. „Síðan er það lykilatriði að bankarnir voru í einkaeigu og þess vegna var hægt að þvinga fram fjárhagslegan aðskilnað á milli þeirra og ríkissjóðs og láta kröfuhafa þeirra bera tapið. Það ætti að vera áminning um þá fjárhagslegu áhættu að binda hundruð milljarða af fjármunum skattgreiðenda í eigin fé bankastofnana eins og nú er raunin.“

Ásgeir segir höftin einnig hafa skapað Íslendingum góða samningsstöðu gagnvart kröfuhöfum. „Við gátum hindrað útgreiðslur úr slitabúunum nema því aðeins kröfuhafarnir tækju tillit til innlends fjármálastöðugleika og jafnvægis á greiðslujöfnuði. Það gerðu þeir að lokum með greiðslu stöðugleikaframlaga og öðrum aðgerðum.“  

„Þannig höfðum við meira vald á eigin örlögum heldur en við hefðum verið á stærra myntsvæði.“

Einn hluti sögunnar

Ásgeir ítrekar að skýrslan sýni einungis einn hluta sögunnar og að sjálfsögðu fylgi margir aðrir jákvæðir og neikvæðir angar hruninu. „Þegar heilt bankakerfi fellur fylgir því vitaskuld miklu meira tap fyrir þjóðfélagið í heild sinni, sem dreifist mjög víða. En á sama tíma tryggði niðurfærsla eigna við stofnun nýju bankanna svigrúm til að gera ýmsa hluti, líkt og að afskrifa skuldir sem starfandi bankar með takmarkað eigið fé geta undir venjulegum kringumstæðum ekki gert.“

„Ein ástæða þess að fyrirtæki hafa til dæmis getað tekið á sig miklar launahækkanir undanfarin misseri án verðhækkana er án efa að efnahagur þeirra var endurskipulagður á árunum í kringum 2010 og 2011,“ segir Ásgeir og bætir við að íslensk fyrirtæki hafi sjaldan verið eins vel fjármögnuð og í dag. 

Íslensk fyrirtæki eru vel fjármögnuð eftir endurskipulagningu sem fylgdi eftir …
Íslensk fyrirtæki eru vel fjármögnuð eftir endurskipulagningu sem fylgdi eftir hrun og geta þar með tekið launahækkunum. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Erfitt að meta óbeinan kostnað

Aðspurður hvort hægt sé að leita frekari svara um óbeinan kostnað við hrunið segir Ásgeir það vera erfitt sökum þess að örðugt sé að afmarka viðfangsefnið. „Hvar ætlarðu að byrja og hvar ætlarðu að enda og ýmsar „hvað ef“ spurningar vakna,“ segir Ásgeir.

Hann bendir á að íslenska hagkerfið hafi vaxið um þrjátíu prósent á árunum 2004 til 2008 og að tuttugu til þrjátíu prósenta viðskiptahalli hafi verið fjármagnaður með skammtímafjármögnun á þessum tíma. „Það er engum blöðum um það að fletta að jafnvel þótt bankakerfið hefði ekki fallið hefðum við upplifað skarpan samdrátt, gengisfall og fleira vegna hinnar alþjóðlegu fjármálakrísu. Hvernig ætlarðu til dæmis að skilja bankakrísuna frá gjaldeyriskrísunni sem var yfirvofandi?“ spyr Ásgeir. „Það hins vegar er hægt að áætla beinan útlagðan kostnað, af því hann er skilgreindur, og það reyndum við að gera þó þetta sé án efa ekki síðasta orðið í þessum efnum,“ segir Ásgeir.

„Ástarbréfin“ dýrust

Í skýrslunni kemur fram að stærstur hluti kostnaðarins af falli bankanna hafi verið vegna svokallaðra ástarbréfaviðskipta Seðlabankans. Um 198 milljarðar króna að nafnverði og 15,7% af vergri landsframleiðslu. Þá var næst mesti kostnaðurinn vegna verðbréfalána ríkissjóðs, eða tæpir 56 milljarðar króna.

Samanlagt kostuðu ástarbréfin ríkissjóð um 254 milljarða króna á verðlagi hvers árs.

Mestu endurheimtur ríkissjóðs koma hins vegar frá stöðugleikaframlögunum, eða um 386 milljarðar króna og 17,5% af vergri landsframleiðslu. Næstmest kemur af fjármögnun viðskiptabankanna, eða um 138 milljarðar.

Sérstakir skattar á slitabúin voru einnig mikilvægur hluti af endurheimtum og skiluðu tæpum 89 milljörðum króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK