Breska Domino's fjárfestir í Domino's á Íslandi

Viðskiptin munu ekki hafa nein áhrif á íslenska neytendur og …
Viðskiptin munu ekki hafa nein áhrif á íslenska neytendur og fyrirtækið verður áfram í meirihlutaeigu íslenskra aðila. mbl.is/Ómar Óskarsson

Domino's í Bretlandi (Domino's Pizza Group), stærsta pizzukeðja Bretlands, hefur keypt minnihluta í rekstri Domino's á Íslandi, í Noregi og Svíþjóð. Breska fyrirtækið, sem er gríðarstórt og skráð í bresku kauphöllina, hyggst með fjárfestingunni taka þátt í fyrirhugaðri uppbyggingu Domino's-keðjunnar á Norðurlöndunum en sérleyfi fyrir rekstri Domino's-staða í Noregi, Svíþjóð og Færeyjum er í eigu íslenska fyrirtækisins Pizza-Pizza ehf.

Viðskiptin munu ekki hafa nein áhrif á íslenska neytendur og fyrirtækið verður áfram í meirihlutaeigu íslenskra aðila. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Með kaupunum innleysa íslenskir eigendur hluta af þeirri fjárfestingu sem lögð hefur verið í vöxt fyrirtækisins á Norðurlöndunum á undanförnum árum. Fyrirtækið er komið vel á veg með uppbygginguDomino's í Noregi og hyggst á næstunni opna fyrstu Domino's staðina í Svíþjóð.

„Löng reynsla stjórnenda Domino's á Íslandi er talin nýtast vel við að opna nýja markaði en reksturinn hér á landi hefur gengið afar vel á síðustu árum og jókst velta fyrirtækisins um 20% milli ára á síðasta ári,“ segir í tilkynningu.

Framtakssjóðurinn EDDA, sem rekinn er af verðbréfafyrirtækinu Virðingu, keypti fjórðungshlut í Domino's á Íslandi í mars í fyrra en EDDA er í eigu nokkurra lífeyrissjóða og annarra fagfjárfesta. EDDA selur, líkt og aðrir íslenskir hluthafar, part af sínum hlut í fyrirtækinu til Domino's Pizza Group í þessum viðskiptum.

Stjórnendur verða hinir sömu eftir kaupin. Birgir Bieltvedt verður starfandi stjórnarformaður á þeim mörkuðum sem viðskiptin spanna.  Birgir Örn Birgisson verður áfram forstjóri Domino’s Pizza á Íslandi og þá mun Agla Jónsdóttir, núverandi fjármálastjóri móðurfélags Domino‘s á Íslandi,  taka að sér yfirfjármálastjórnun allra félaganna.

Mun eiga 45–49% í norrænu félögunum

Í tilkynningunni kemur fram að aðkoma breska félagsins, sem eiga mun á bilinu 45–49% í norrænu félögunum, mun gera fyrirtækinu kleift að stækka enn hraðar á Norðurlöndunum. Markaðurinn fyrir pizzur í Noregi og Svíþjóð telst óþroskaður í samanburði við Bretlandsmarkað, þar sem eru þegar yfir 900 Domino's-staðir. Lögð er áhersla á að nýta tækifærið sem fyrir hendi er á þessum mörkuðum og vaxa hratt. Þá skiptir sífellt meira máli sú tækni sem notuð er í rekstrinum en neytendur panta núorðið nær eingöngu í gegnum öpp og heimasíður.  Dýrmæt reynsla breska fyrirtækisins af netauglýsingum og markaðssetningu mun gagnast vel við að auka markaðshlutdeild Domino‘s í Noregi og Svíþjóð þar sem Domino's er nýliði á markaðnum.

Heildarfjárfesting Domino's Pizza Group nemur um 24 milljónum sterlingspunda (fjórum milljörðum íslenskra króna) og einnig öðlast fyrirtækið kauprétt á stærri hlut.Domino's í Bretlandi er stærsta pizzufyrirtæki Bretlands og hefur einnig sérleyfi fyrir Domino‘s í Sviss, á Írlandi, í Liechtenstein og Lúxemburg.

Domino's Pizza Group er skráð í bresku kauphöllina og er verðmetið á um 315 milljarða króna.

Áhugaverð lönd til að fjárfesta í

Í tilkynningunni er vitnað í Birgi Bieltvedt, stjórnarformann Domino's á Íslandi, sem segir þetta frábæra viðurkenningu. „Það má segja að sá góði árangur sem náðst hefur á Íslandi sé grunnurinn að þessum viðskiptum í dag. Þá mun þetta vonandi færa fleiri starfsmönnum Domino's á Íslandi tækifæri til að nýta þekkingu sína og starfa erlendis í framtíðinni. Þetta er líka viðurkenning fyrir íslenskt atvinnulíf,“ er haft eftir Birgi og bætti að í tilkynningu sem Domino's Pizza Group sendi til bresku kauphallarinnar þá er Íslandi, Noregi og Svíþjóð sérstaklega lýst sem áhugaverðum löndum að fjárfesta í.

Sagt er að þau búi við stöðugt efnahagsumhverfi, lítið atvinnuleysi og mikla netnotkun. Það er afar jákvætt að alþjóðlegt fyrirtæki eins og þetta vilji fjárfesta á Íslandi og setji okkur í flokk með nágrönnum okkar á Norðurlöndunum. Megináherslan í rekstrinum í framhaldinu verður á vöxt utan Íslands.

Fyrsti Domino's-pizzastaðurinn á Íslandi var opnaður árið 1993. Í dag rekur fyrirtækið 19 slíka staði á Íslandi. Um 600 starfsmenn starfa hjá Domino‘s hér á landi, ríflega helmingur þeirra í hlutastarfi. Þá rekur fyrirtækið nú tíu staði í Noregi og er með sérleyfi til að opna staði í Svíþjóð og Færeyjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK