Hvetja ungar konur til dáða

Ný stjórn Ungra athafnakvenna. F.v. Andrea Gunnarsdóttir, Guðbjörg Lára Másdóttir, …
Ný stjórn Ungra athafnakvenna. F.v. Andrea Gunnarsdóttir, Guðbjörg Lára Másdóttir, Elísabet Erlendsdóttir, Helena Rós Sturludóttir, Margrét Berg Sverrisdóttir og Dagný Engilbertsdóttir.

„Starfið hefur gengið ótrúlega vel og við stefnum á að halda áfram á sömu braut,“ segir Margrét Berg Sverrisdóttir, formaður Ungra athafnakvenna, en ný stjórn félagsins var kosin á aðalfundi 19. maí sl. Auk Margrétar skipa stjórnina Guðbjörg Lára Másdóttir gjaldkeri, Andrea Gunnarsdóttir, Dagný Engilbertsdóttir, Elísabet Erlendsdóttir og Helena Rós Sturludóttir.

Hjálpa ungum konum að þróa hæfileika sína

Hlutverk Ungra athafnakvenna er að hvetja ungar konur til dáða, veita þeim innblástur og hjálpa þeim að þróa hæfileika sína. Í félaginu eru um 150 félagskonur sem eiga það sameiginlegt að vilja skara fram úr og eyða þeim vandamálum sem ungar konur á vinnumarkaði standa frammi fyrir í dag.

„Félagið samanstendur af konum í námi og konum sem eru nýkomnar á vinnumarkaðinn. Við höfum mikið fengið spurningar um hvort það séu einhver aldurstakmörk og hvenær konur teljist ekki lengur vera ungar athafnakonur en við höfum sagt að svo lengi sem konur finna sig í starfinu hjá okkur séu þær velkomnar. Við erum því með frekar breitt aldursbil,“ segir Margrét um starfið.

Óhræddar við að biðja um launahækkun eftir fundinn

Félagið Ungar athafnakonur var stofnað 2014 og hefur staðið fyrir fjölmörgum viðburðum. Má þar helst nefna viðburðina Ljónin í og úr veginum sem voru haldnir í samstarfi við Íslandsbanka sem opnir voru almenningi. Einnig hefur félagið staðið fyrir ýmsum fyrirtækjaheimsóknum og fræðslufundum sem einungis hafa verið opnir félagskonum.

„Við höfum mikið verið að miða að því að halda viðburði sem aðstoða félagskonurnar okkar á einhvern hátt. Það allra skemmtilegasta er þegar maður labbar út af fundi og fyllist eldmóði,“ segir Margrét og heldur áfram: „Við héldum til dæmis viðburð síðasta vetur sem hét „Á hvað horfa mannauðsstjórar og hvernig eigum við að haga okkur í launaviðtölum?“ og það var ótrúlega gaman hvað það löbbuðu margar út fullar af eldmóði og voru tilbúnar að vera óhræddar við að biðja um launahækkun.“

Mikilvægt að fá karla með í umræðuna

Hún segir þó að það séu ekki einungis konur sem halda fyrirlestra fyrir félagskonur, því það sé einnig mikilvægt að fá karlmenn með í umræður. „Þetta hefur verið mjög einhliða samtal og okkur finnst mjög mikilvægt núna til að halda baráttunni áfram að fá strákana með okkur í umræðuna.“

Fyrsta starfsárið sem sjálfstætt félag gengið vel

Félagið hefur vaxið gríðarlega þrátt fyrir að hafa einungis starfað í tvö ár, en það byrjaði undir regnhlíf Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA). „Eftir fyrsta starfsárið ákváðum við að vera sjálfstæðar og starfa ekki undir FKA lengur svo núna erum við komnar með okkar eigin kennitölu, höldum okkar eigin aðalfund og gerum þetta allt sjálfar,“ segir Margrét og bætir við að fyrsta starfsárið sem sjálfstætt félag hafi gengið mjög vel.

„Þetta ár var viðburðaríkara en það fyrsta og að mínu mati var það góð breyting að geta ráðið starfinu alveg sjálfar. Við stefnum á að halda áfram á sömu braut og munum vera með viðburð einu sinni í mánuði nema yfir sumartímann,“ segir hún og bætir við að 6. september nk. verði haldinn kick-off fundur sem verður opinn öllum. „Þá reynum við að ná sem víðast og bjóða öllum þeim sem hafa áhuga á að koma. Það er alltaf gaman að bæta við og stækka enn frekar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK