Segir grísku þjóðina niðurlægða

AFP

Líkja má afskiptum Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins af Grikklandi við landrán, að mati James K. Galbraiths, hagfræðiprófessors og ráðgjafa grísku ríkisstjórnarinnar í samningaviðræðum hennar við lánardrottna landsins. Kröfur þeirra eru óraunhæfar og er nánast engin leið að gera þeim til geðs.

Galbraith hélt erindi á hádegisfundi á vegum hagfræðideildar Háskóla Íslands og Samtaka sparifjáreigenda í hátíðarsal Háskóla Íslands í dag.

Hann sagði að vissulega væri rétt að halda því til haga að Grikklandi hefði aldrei verið, og væri ekki nú, vel stjórnað ríki. Krísan hefði að einhverju leyti verið þeim sjálfum að kenna. Hann nefndi sérstaklega að grískir ráðamenn hefðu farið mikinn á síðasta áratug og tekið fjölmörg lán og skuldbundið þannig grískan almenning, vitandi vits að hann myndi ekki geta greitt af lánunum ef efnahagsstaða landsins breyttist til hins verra, eins og raunin varð síðar.

Grikkir hefðu að mörgu leyti hagað sér eins og bandarísku bankarnir sem veittu fjölskyldum húsnæðislán á árunum fyrir hrun, vitandi fullvell að lántakarnir gætu aldrei greitt þau til baka.

Það væri hins vegar heilmikil einföldun að kenna Grikkjum alfarið um þeirra vanda. Lánardrottnar landsins, Evrópusambandið, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Evrópski seðlabankinn, hefðu gert illt vera með misráðnum afskiptum sínum sem hefðu gengið fram úr öllu hófi.

Óraunhæfar kröfur lánardrottnanna

Kröfur lánardrottnanna hefðu verið óraunhæfar og með öllu ósanngjarnar. Þeir hefðu til að mynda krafist þess að Grikkir skiluðu tekjuafgangi upp á 4,5% af vergri landsframleiðslu. Það væri markmið sem nánast ekkert ríki í heiminum gæti náð, hvað þá Grikkland. Gailbraith sagði að lánardrottnarnir hefðu misnotað aðstöðu sína og nefndi hann nokkur nöfn í því sambandi, svo sem Jean-Claude Trichet, fyrrum bankastjóra Evrópska seðlabankans, Timothy Geithner, fyrrum fjármálaráðherra Bandaríkjanna, Dominique Strauss-Kahn, sem stýrði Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Angelu Merkel Þýskalandskanslara og Wolfgang Schauble, fjármálaráðherra Þýskalands. Markmiðið hafi verið að koma Grikkjum á kné.

Hagfræðiprófessorinn James K. Galbraith.
Hagfræðiprófessorinn James K. Galbraith. mbl.is/Árni Sæberg

Galbraith sagðist hafa setið fundi með grísku ríkisstjórninni í viðræðum sínum við lánardrottnana. Það hefði vakið athygli hans að lánardrottnarnir vildu ekki að viðræðurnar snérust um ósjálfbærar skuldir Grikklands eða umbætur sem Evrópusambandið gæti gripið til til þess að bæta stöðu Grikkja, heldur hefðu þær aðeins miðað að því að fá grísku ríkisstjórnina til þess að samþykkja skilmála, sem lánardrottnarnir sjálfir settu, fyrir frekari neyðarlánum.

Grikkir hefðu að lokum verið nauðbeygðir til þess að samþykkja meðal annars harkalegan niðurskurð, skertar lífeyrisgreiðslur, afregluvæðingu á vinnumarkaði og brunaútsölu á eignum ríkisins.

Gríska þjóðin, sem neitaði að samþykkja skilmála lánardrottnanna í þjóðaratkvæðagreiðslu, hefði að lokum verið hugrakkari en ríkisstjórnin. Ríkisstjórnin hefði ekki viljað taka áhættuna og segja þvert nei.

Ríkiseignir seldar á brunasölu

Hagfræðiprófessorinn bætti því við að nú færi fram einkavæðing á fjölmörgum ríkiseignum, eins og til að mynda eyjum, hótelum og meira að segja baðströndum. „Grískar eignir hafa verið settar á sölu og það á mjög lágu verði,“ sagði Galbraith.

Grísk fyrirtæki berðust jafnframt í bökkum, sér í lagi lítil fyrirtæki á borð við veitingastaði, verslanir og hótel. Skattar hefðu hækkað og fyrirtækin hrektust nú í gjaldþrot. Þau gætu einfaldlega ekki greitt af skuldum sínum.

Ástandið væri skelfilegt og í raun niðurlægjandi fyrir Grikki. Þeir tækju nú aðeins við tilskipunum frá ríkari þjóðum Evrópu. Evrópskum ráðamönnum hefði algjörlega mistekist að draga úr ójöfnuði á milli suður- og norðurhluta álfunnar og bæta stöðu Grikklands. Það gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér síðar meir.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK