Gjaldþrotum og nýskráningum fjölgar

Nýskráningum og gjaldþrotum fjölgaði mikið í leigustarfsemi.
Nýskráningum og gjaldþrotum fjölgaði mikið í leigustarfsemi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Nýskráningar einkahlutafélaga í maí voru 269 og hefur þeim fjölgað um fimmtán prósentustig á síðustu tólf mánuðum í samanburði við tólf mánuðina þar á undan.

Í nýjum tölum Hagstofunnar kemur fram að alls voru 2.558 ný einkahlutafélög skráð á tímabilinu, samanborið við 2.224 á fyrri tólf mánuðum. Hlutfallsleg fjölgun nýskráninga var mest í fasteignaviðskiptum þar sem þeim fjölgaði úr 267 í 409, eða um 53 prósentustig á síðustu tólf mánuðum.

Meðal annarra greina þar sem nýskráningum hefur fjölgað má nefna leigustarfsemi og ýmsa sérhæfða þjónustu þar sem nýskráningum fjölgaði úr 166 í 220, eða um 33 prósentustig. Þá fjölgaði einnig nokkuð í flokki gististaða og veitingareksturs, eða úr 143 í 178.

Mest hlutfallsleg fækkun nýskráninga á síðustu tólf mánuðum var í landbúnaði, skógrækt og fiskveiðum eða alls sjö prósentustiga fækkun milli tímabila.

Mun fleiri gjaldþrot í leigustarfsemi

Skráð gjaldþrot í maí 2016 voru 114 og hefur gjaldþrotum fjölgað um tvö prósentustig á síðustu tólf mánuðum samanborið við tólf mánuðina þar á undan.

Alls voru 787 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á tímabilinu, samanborið við 774 á fyrra tímabili.

Á síðasta 12 mánaða tímabili hefur gjaldþrotum fjölgað hlutfallslega mest í leigustarfsemi og ýmissi sérhæfðri þjónustu en þau voru 43 samanborið við 30 á fyrra tímabili. Það jafngildir 43 prósentustiga fjölgun.

Gjaldþrotum fækkaði aftur á móti mest í fasteignaviðskiptum, úr 95 í 67, eða um 29 prósentustig.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK