Jafningjalán hefja innreið

Hægt er að fá 100 til 500 þúsund krónur lánaðar …
Hægt er að fá 100 til 500 þúsund krónur lánaðar hjá Aktiva. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Móberg ehf. hefur stofnað dótturfélagið Aktiva sem heldur utan um fyrstu jafningjalánastarfsemi Íslands. Með því er átt við að lántakar og lánveitendur eru tengdir saman í gegnum lánatorg án milligöngu fjármálastofnunar.

Þetta er gert að erlendri fyrirmynd og hefur starfsemi sem þessi til dæmis verið áberandi í Bretlandi eftir hrun. Í nýlegri skýrslu Deloitte kom fram að velta jafningjalána nam 2,1 milljarði punda á síðasta ári samanborið við 700 milljónir punda fyrir tveimur  árum.

Vextir af lánum Aktiva byggjast á lánshæfismati lántaka líkt og það er metið af Creditinfo. Fólki sem náð hefur 21 árs aldri og fellur í flokka A1 til C3 býðst að taka lánin en  flokkar Creditinfo ná alls niður í E3.  Þeir sem eru á vanskilaskrá og hafa slæma greiðslusögu ættu því ekki að geta sótt um lán. Vextirnir hækka samkvæmt hverjum lánshæfisflokki og eru á bilinu 8,5% til 14,5%. Hagstæðustu kjörin fá þeir sem hafa bestu greiðslusöguna. Til samanburðar má nefna að almennir vextir á yfirdráttarlánum hjá stóru viðskiptabönkunum þremur eru á bilinu 12,35% til 13,5%.

Vextirnir hjá Aktiva eru á bilinu 8,5% til 14,5% en …
Vextirnir hjá Aktiva eru á bilinu 8,5% til 14,5% en til samanburðar má að almennir yfirdráttarvextir eru á bilinu 12,35% til 13,5%. mbl.is/Eggert Jóhannesson

100 til 500 þúsund króna lán

Hægt er að fá lánað allt frá 100 til 500 þúsund krónur og fjárhæðina þarf að greiða til baka með mánaðarlegum afborgunum yfir sex til átján mánaða tímabil.

Hver lánsumsókn lifir í sólarhring á síðunni og ef ekki tekst að fjármagna lánið innan þess tíma dettur hún út. Lántaki getur þá reynt aftur daginn eftir.

Það sem Aktiva hefur á þessu að græða er 3,70% umsýslugjald af höfuðstól allra lána sem tekin eru auk 495 króna afgreiðslugjalds sem lántakar þurfa að greiða við hverja endurgreiðslu. Umsýslugjaldið dregst frá fjárhæð höfuðstóls áður en lánið er afgreitt.

Aktiva innheimtir einnig 1,25% umsýslugjald af hverri afborgun sem rennur til lánveitanda og er það dregið frá endurgreiðslunni áður en hún er lögð inn á bankareikning viðkomandi.

Lánveitandi stýrir áhættunni

Endanleg ávöxtun lánveitanda ræðst af fjárfestingastefnu hans og sá sem leggur pening í lánatorgið stýrir í hvaða áhættuflokka hann rennur. Hægt er að dreifa áhættunni í einni fjárfestingu á nokkra mismunandi flokka og þar með á fleiri lántakendur.

Lánveitandi hefur ekki aðgang að persónuupplýsingum um lántaka og getur hann ekki staðið að innheimtu lánsins. Aktiva sér um að skrá kröfuna hjá viðskiptabanka lántaka og fer hún í hefðbundið innheimtuferli ef vanskil verða. Dráttarvextir renna til lánveitanda í þessari stöðu.

Andri Úlfarsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Móberg.
Andri Úlfarsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Móberg.

„Heilbrigðara kerfi“

„Okkur finnst heilbrigðara að þeir sem eru með lakara lánshæfismat borgi hærri vexti,“ segir Andri Úlfarsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Móberg. „Þegar þú ert til dæmis með yfirdráttarlán hjá banka getur þú verið að borga niður vextina hjá öðrum sem eru með lakari viðskipasögu,“ segir hann og bætir við að þetta gæti jafnvel aukið almennt fjármálalæsi hjá fólki. „Ef þú greiðir og stendur í skilum færðu betri kjör.“

Um neytendalán er að ræða og telur Andri að þau verði t.d. notuð í að fjármagna önnur skammtímalán, líkt og yfirdrátt eða kreditkortaskuld, eða aðra almenna hluti líkt og sumarfrí eða innborgun á bíl.

Þjónustan hjá Aktiva verður einungis í boði hér á landi og fyrir fólk með íslenskt lögheimili og íslenska kennitölu. Aðspurður um mögulega útrás utan landsteinanna segir Andri að fyrirtækið muni einbeita sér að íslenska markaðnum í bili en liggi tækifæri erlendis í framtíðinni sé möguleiki á því að færa út kvíarnar seinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK