Óttast ekki komu H&M hingað til lands

Svava Johansen, eigandi NTC-verslunarkeðjunnar.
Svava Johansen, eigandi NTC-verslunarkeðjunnar. mbl.is/Árni

Verslunarfólk hér á landi óttast ekki komu sænska verslunarrisans H&M hingað til lands, heldur tekur því fagnandi að verslun muni nú færast heim í auknum mæli. Mbl.is ræddi við Svövu Johansen, eiganda NTC-tískukeðjunnar, Finn Árnason, forstjóra Haga, og Albert Þór Magnússon, umboðsaðila Lindex, sem eru sammála um að koma H&M séu gleðitíðindi.

Óttast ekki samkeppnina

„Það eru mjög gleðilegar fréttir að verslunin færist að svona stórum hluta heim. Það verður miklu minni spenningur að fara út og kaupa sér H&M-vörur þegar verslunin er komin hingað heim og þá skilar peningurinn sér í ríkissjóð hér sem er mjög gott mál,“ segir Svava. „Þetta er verslun sem Íslendingar elska og hafa verslað mikið við þrátt fyrir að hún sé ekki á landinu. Ég vil miklu frekar að við séum að versla innanlands.“

Hún segist ekki óttast samkeppnina, enda telji hún að koma H&M hingað til lands muni gera það að verkum að fólk muni versla almennt meira hér á landi. „Ég tel að þetta auki áhuga á verslun og verði aðdráttarafl fyrir fataverslun í landinu almennt.“

„Við munum bara reyna að gera enn betur“

Svava segir tollalækkun og lækkun á gengi hafa hjálpað mikið til í verslun undanfarið og það muni koma H&M gera einnig. Sú staðreynd geri þó að verkum að samkeppni verði að sjálfsögðu meiri. „Þetta gerir það að verkum að við þurfum að standa okkur enn betur í samkeppninni og það er bara skemmtileg áskorun og heldur manni á tánum,“ segir Svava. „Við munum bara reyna að gera enn betur.“

Svava segir að í verslunum NTC sé mikið úrval af vörum sem séu á svipuðu verði og í H&M. Því verði lágt verð í verslunum keðjunnar ekki áhyggjuefni. „Við erum með þrjá vöruflokka og þar af er einn sem er svipaður þeim sem H&M er með,“ segir Svava og heldur áfram. „Við dönsum alltaf í takt við efnahag þjóðarinnar. Við getum fært okkur til en erum núna á mjög skemmtilegum stað. Ég er mjög ánægð endar er mikill uppgangur í verslunum hjá okkur.“

Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Finnur Árnason, forstjóri Haga. Eggert Jóhannesson

Hagur allra að verslun fari fram hér á landi

„Ég held að almennt séu þetta góðar fréttir fyrir íslenska verslun. Ég held að þetta muni að stórum hluta flytja þá verslun sem fluttist úr landi 2008 til baka og ég fagna því,“ segir Finnur.

Bendir hann á að árið 2008 hafi nánast helmingur markaðarins flust til útlanda, en það sé m.a. hlutverk stjórnvalda að bregðast við þeirri stöðu. Það sé hagur allra að verslun fari fram hér á landi en ekki erlendis þar sem skatttekjur ríkissjóðs af henni séu engar. Hagar hafi jafnframt hvatt til þess að virðisaukaskattur á fatnaði verði færður í neðra þrep til að gera fataverslun enn samkeppnishæfari við útlönd.

„Það voru felldir niður svokallaðir tvöfaldir tollar um síðustu áramót en svo teljum við neðra þrepið í virðisaukaskatti eðlilegt fyrir fatnað. Við erum þar að keppa við virðisaukalausan fatnað á barnavöru t.d. í Bretlandi og ef við viljum flytja þessa verslun heim alfarið þurfum við að vera samkeppnishæf í skattlagningu,“ segir Finnur.

„Við reynum auðvitað að vera samkeppnishæf“

Helgi S. Gunn­ars­son, for­stjóri fast­eigna­fé­lags­ins Reg­ins hf. sem stend­ur að komu H&M hingað til lands, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag að hann gerði ráð fyr­ir að verð á föt­um yrði sam­bæri­leg við verð í versl­un­um í öðrum lönd­um. Finnur segist ekki óttast þetta og bendir á að þegar hafi verð hjá Högum verið lækkað mikið.

„Hagkaup hefur lækkað verð hjá sér með því að taka inn F&F sem er merki í eigu Tesco. Undanfarin tvö ár er líklega 20–30% lækkun á fataverði í Hagkaup. Zara lækkaði verð umtalsvert í fyrra og við erum að lækka verð enn frekar þar. Við reynum auðvitað að vera samkeppnishæf bæði í vöruframboði og verðlagi. Það er engin spurning um að við verðum með mjög sterka samstarfsaðila og komum til með að sinna okkar viðskiptavinum eins vel og hægt er,“ segir hann.

Albert Þór Magnússon og Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir, umboðsaðilar Lindex á …
Albert Þór Magnússon og Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir, umboðsaðilar Lindex á Íslandi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Halda áfram sinni stefnu þrátt fyrir að vera helsti keppinauturinn

Svava segist ekki smeyk um að H&M komi til með að stela viðskiptavinum hennar. „Ég held að þetta hafi meiri áhrif á aðrar verslanir eins og Lindex. Þetta er sami markaðurinn. Lindex er búin að vera okkar H&M en þetta er nákvæmlega sami markaðurinn. H&M er helsti keppinauturinn þeirra.“

Albert segist hins vegar ekkert óttast og Lindex muni halda áfram sinni stefnu. „Alls staðar þar sem H&M er á heimamarkaði er okkur að finna líka. Þetta mun ekki breyta okkar stefnu eða því sem við erum að gera, síður en svo,“ segir hann. „Við sjáum það að markaðurinn okkar og staða okkar er að styrkjast.“

Fimm ár eru liðin frá því að Lindex opnaði fyrst hér á landi og segir Albert að móttökurnar hafi farið fram úr sínum björtustu vonum. „Það hefur verið eftir því tekið og það er ánægjulegt að ekki bara við skulum leggja metnað í íslenskan markað heldur fleiri,“ segir hann.

Segist hann fagna því fyrir hönd Íslendinga að þjóðin sé komin á þann stað að fyrirtæki á borð við H&M séu að leggja metnað sinn í að koma til landsins. „Við getum ekki annað en fagnað því að við erum ekki bara að ná góðum árangri á sviði fótbolta heldur á öðrum sviðum líka,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK