Rothögg fyrir túrismann

Fjöldi hótela er til sölu í Tyrklandi þar sem reksturinn …
Fjöldi hótela er til sölu í Tyrklandi þar sem reksturinn hefur ekki staðið undir sér. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Misheppnað valdarán gæti reynst rothögg fyrir viðkvæma tyrkneska ferðaþjónustu eftir sjö hryðjuverkaárásir á þessu ári. Ferðamönnum fækkaði um 34,7% í maí og er þetta mesti samdrátturinn í yfir tvo áratugi. Ferðaskrifstofur hafa fækkað Tyrklandsferðum vegna lítillar eftirspurnar og hótelum hefur verið lokað.

Í síðasta mánuði ákváðu for­svars­menn ferðaskrif­stof­unn­ar Naz­ar að fella niður allt flug frá Íslandi til Tyrklands frá miðjum júlí. Til stóð að bjóða upp á ferðir í allt sumar en ákvörðunin var tekin vegna lítillar eftirspurnar. Sagði Kemal Yam­anl­ar, for­stjóri ferðaskrif­stof­unn­ar, að sala á Tyrklandsferðum gengi hvergi vel og að 30 til 40% samdráttur væri á flestum mörkuðum. Nazar hefur þó þegar opnað fyrir bókanir næsta sumar.

Þetta var fyrir valdaránstilraunina í síðustu viku en eftir hana hafa stjórnvöld fjölmargra landa varað þegna sína við óþarfa ferðum til Tyrklands. 

Fækkun ferðamanna á árinu.
Fækkun ferðamanna á árinu. Skjáskot BBC

Túrismakaflanum að ljúka?

„Núna á þessari stundu er túrismakaflanum hjá Tyrklandi að ljúka,“ segir Zekiye Yucel, Tyrki og eigandi ferðaskrifstofunnar The Discovery Collection, í samtali við Telegraph. Hann segir sífellt minni eftirspurn eftir ferðum til Tyrklands. „Ég veit ekki hvað mun gerast á næstu sex mánuðum, en við værum ekki róleg með að senda fólk í frí þangað á næstu mánuðum,“ segir hann. 

Hann segir að bókanir hafi nýlega verið aðeins að ná sér aftur á strik og að Bretar hafi verið farnir að sýna landinu aftur áhuga. Hryðjuverkaárásin á flugvellinum í Ankara dró snarlega úr þeirri þróun. Á eftir fylgdi valdaránstilraunin sem hann segir algjört rothögg.

Ferðaskrifstofur hafa þurft að fækka ferðum til að mæta minni …
Ferðaskrifstofur hafa þurft að fækka ferðum til að mæta minni eftirspurn. AFP

Beina skemmtiferðaskipum frá landinu og fækka ferðum

Bretland er einn af þremur helstu ferðamannamörkuðum Tyrklands ásamt Rússlandi og Þýskalandi. Í frétt Telegraph segir að bókanir til landsins hafi víðs vegar dregist saman um 50% og hafa stórfyrirtæki á borð við Neilson, Mark Warner og Thomas Cook fellt niður ferðir. Þá hafa eigendur skemmtiferðaskipa gert breytingar á ferðum til að forðast Tyrkland. Þýska ferðaskrifstofan TUI greindi einnig frá því í samtali við Reuters að bókanir hefðu dregist saman um 40%.

Enn önnur fyrirtæki er sérhæfa sig í Tyrklandsferðum hafa þá einfaldlega farið í þrot. Þeirra á meðal er ferðaskrifstofan Anatolian Sky, sem er ein sú stærsta og elsta í Bretlandi sem sérhæfir sig í ferðum til Tyrklands. Hún hætti störfum hinn 1. júlí sl., einungis örfáum dögum eftir hryðjuverkaárásina á flugvellinum í Ankara þar sem 42 létust og yfir 230 særðust. Í bréfi til viðskiptavina sagði eigandinn AkinKoc að pólitískur óstöðugleiki og hryðjuverkaárásir í Tyrklandi hefðu leitt til endalokanna. Segir hann hverja einustu árás hafa haft hrikaleg áhrif á fyrirtækið.

Ferðamenn í Tyrklandi frá 2000 til 2016.
Ferðamenn í Tyrklandi frá 2000 til 2016. dojo chart

Störf í hættu

Í samtali við BBC segist eigandi fjögurra stjörnu hótelsins Garden Resort Bergamot Hotel við Antalya, hafa þurft að grípa til uppsagna og verðlækkana til að mæta minni eftirspurn. „Ef ástandið verður með svipuðum hætti á næsta ári þurfum við bara að loka,“ segir hann.

Ástandið hefur einnig áhrif á verslunareigendur á svæðinu og segir Istiklal Sevuk sem hefur rekið skartgripabúð í Antalya að óvenju lítið hafi verið að gera. Þá telur hann útlitið svart sökum þess að vandinn liggi ekki einungis í hryðjuverkunum heldur einnig vanhæfum stjórnvöldum sem taki ekki á vandamálinu.

Um milljón manns starfa í ferðamannageiranum í Tyrklandi og samkvæmt frétt Wall Street Journal hafa fjölmörg hótel verið sett á sölu á árinu. Eigendur hafa steypt sér í skuldir og ferðamenn mæta ekki á svæðið. Samkvæmt mati Hotel News í apríl voru um þrjú þúsund hótel til sölu á þeim tíma. Þá eru mörg þeirra undirverðlögð og er tekið dæmi um þriggja stjörnu hótel í Kappadókíu sem var metið á sjö milljónir dollara, eða um 870 milljónir króna. Eigandinn fór aftur á móti einungis fram á 4,2 milljónir dollara, eða 520 milljónir.

Valdaránstilraunin var rothögg ferðamannagerians segja sumir sérfræðingar.
Valdaránstilraunin var rothögg ferðamannagerians segja sumir sérfræðingar. AFP

Fjórðungsfækkun í ár?

Ferðamannageirinn hefur á síðustu árum verið ein helsta tekjulind tyrknesku þjóðarinnar og stendur undir um 11% landsframleiðslunnar. Á árinu 2014 komu um tæplega 42 milljónir ferðamanna til landsins en þeim fækkaði nokkuð í fyrra og voru rúmlega 36 milljónir. Hafa sumir sérfræðingar spáð því að ferðamönnum muni fækka um fjórðung í ár og gæti það kostað þjóðina um átta milljarða dollara, eða um 990 milljarða króna, í gjaldeyristekjur.

Eitthvert þurfa þó ferðamenn að fara og hefur þessi þróun haft mikil áhrif á önnur lönd sem hafa síður orðið fyrir barðinu á hryðjuverkum. Bókanir til Spánar, Kanaríeyja og Ítalíu hafa stóraukist og Ítalir hafa til dæmis töluverðar áhyggjur af þróuninni sökum offjölgunar á helstu ferðamannastöðum landsins. Hafa stjórnvöld þar í landi verið beðin um að tryggja dreifingu ferðamanna betur til að vernda vinsælustu perlurnar.

Neyðaraðstoð til ferðageirans

Stjórnvöld í Tyrklandi eru meðvituð um ástandið og í vor kynnti Ahmet Davutoglu, þáverandi forsætisráðherra landsins, áætlun er fól í sér 87 milljóna dollara neyðaraðstoð til ferðamannageirans. Átti fjármagnið meðal annars að renna til fjármálafyrirtækja til að gefa fyrirtækjum í ferðageiranum aukið svigrúm til endurskipulagningar í kjölfar nýlegra áfalla í greininni. Ennþá er óljóst með árangurinn af þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK