Kostnaður eykst vegna gengislækkunar

AFP

Carolyn McCall, forstjóri breska lággjaldaflugfélagsins Easyjet, segir að kostnaður félagsins hafi aukist um 40 milljónir sterlingspunda, sem jafngildir um 6,5 milljörðum íslenskra króna, á aðeins fjórum vikum vegna gengislækkunar pundsins.

Í samtali við breska ríkisútvarpið segir hún að gengislækkunin, sem hefur verið viðvarandi eftir að Bretar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu að segja skilið við Evrópusambandið, hafi gert það að verkum að olía hafi orðið dýrari. Félagið greiðir fyrir olíuna í Bandaríkjadölum.

Hún bætir því við að aukinn kostnaður við að ferðast erlendis hafi fælt marga Breta frá því að kaupa sér flugfar.

Gengi pundsins hefur lækkað um meira en tíu prósentustig gagnvart gengi Bandaríkjadals frá því að þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram 23. júní síðastliðinn.

Félagið birti ársfjórðungsuppgjör sitt í morgun, en þar kemur meðal annars fram að félagið hagnast nú minna en áður af hverjum farþega.

Þrátt fyrir að farþegum hafi fjölgað á öðrum fjórðungi ársins, og hafi verið 20,2 milljónir, þá settu óveður, verkföll og hryðjuverkaárásir strik í reikninginn. Lækkuðu tekjur á hvert flugsæti um 8% á tímabilinu.

Hlutabréf Easyjet lækkuðu um meira en 3% í verði í morgun.

Forstjórinn segir þó að tekjulækkunin hafi komið viðskiptavinum félagsins til góða.

„Það má benda á að þó svo að öll flugfélög gangi nú í gegnum erfiða tíma, þá eru þettar góðar fréttir fyrir farþega,“ segir hún. „Þetta þýðir í raun að það er ódýrara að fljúga og farmiðaverð er lágt.“

Hún segir að gengislækkun pundsins hafi einnig haft áhrif á „traust viðskiptavina“ og hvort fólk sé reiðubúið til þess að bóka flug erlendis. Eftirspurnin ætti þó líklegast eftir að komast í samt horf á næstu mánuðum.

Umsvif félagsins hér á landi hafa aukist mikið síðustu ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK