Lánshæfiseinkunn ÍLS hækkuð

Matsfyrirtækið Standard&Poor´s hefur hækkað lánshæfiseinkunn Íbúðalánasjóðs. Ný einkunn sjóðsins er BB. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem birtist á vef S&P við lokun markaða síðdegis í gær. 

Helstu ástæðu ákvörðunarinnar segir matsfyrirtækið vera þá að fjárhagsleg afkoma sjóðsins á síðasta ári hafi farið verulega fram úr fyrri væntingum, en sjóðurinn hafi nú verið rekinn með afgangi í tvö ár. Þá telur S&P að þau skref sem stigin hafa verið til að draga úr vanda vegna uppgreiðslna eldri húsnæðislána muni leiða til bættrar afkomu Íbúðalánasjóðs á næstu árum og skila honum í sterkari stöðu en fyrri spár matsfyrirtækisins höfðu gert ráð fyrir.

Spá bættri afkomu

Í fréttatilkynningunni segist matsfyrirtækið spá bættri afkomu Íbúðalánasjóðs. Batnandi efnahagslíf á Íslandi hafi haft jákvæðari áhrif á efnahag sjóðsins en búist var við. S&P telur allar líkur á að íslenska ríkið muni standa á bak við við skuldbindingar sjóðsins, ef með þurfi, en mun minni líkur séu nú en áður á því að ríkið þurfi að leggja sjóðnum til fé á næstu árum. Ekki hafi verið um neinar slíkar innspýtingar frá ríkissjóði að ræða frá árinu 2014. Lánasafn sjóðsins sé komið í mun betra horf, ekki síst vegna bætts efnahagsástands á Íslandi. 

Einnig segir S&P að sala á Leigufélaginu Kletti og fleiri eignum sjóðsins til að bæta fjárhagsstöðu hans, sem og aðgerðir til að lækka rekstrarkostnað og minnka yfirbyggingu hjá sjóðnum, hafi haft áhrif á ákvörðun matsfyrirtækisins um að hækka lánshæfiseinkunnina.

Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs.
Hermann Jónasson, forstjóri Íbúðalánasjóðs.

Gleðiefni að sjá minnst á hagræðingaraðgerðir

„Þetta eru góð tíðindi. Ákvörðun S&P er hvort tveggja viðurkenning á jákvæðu efnahagsumhverfi á Íslandi og þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til til að bæta stöðu Íbúðalánasjóðs. Langtímahorfur sjóðsins eru nú að sögn matsfyrirtækisins stöðugar og lánshæfi hans stórbætt frá því sem var. Þá er gaman að sjá matsfyrirtækið nefna þá hagræðingu sem átt hefur sér stað hjá sjóðnum; fækkun sviða, einföldun starfseminnar, sölu fullnustueigna og bætta ávöxtun uppgreiðslufjármuna. Það er mikið gleðiefni fyrir bæði stjórnendur og starfsfólk sjóðsins að sú vinna sé nú að skila þessum árangri,“ er haft eftir Hermanni Jónassyni, forstjóra ÍLS, í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK