Ræða fríverslun milli Bretlands og Kína

Philip Hammond, fjármálaráðherra Bretlands, ræðir við Ma Kai, varaforsætisráðherra Kína, …
Philip Hammond, fjármálaráðherra Bretlands, ræðir við Ma Kai, varaforsætisráðherra Kína, í Peking. AFP

Philip Hammond, fjármálaráðherra Bretlands, hefur hafið viðræður við kínversk stjórnvöld um fríverslunarsamning á milli ríkjanna sem gæti gefið kínverskum bönkum og fyrirtækjum greiðari aðgang að breskum markaði.

Fjármálaráðherrann sagði í samtali við breska ríkisútvarpið að tími væri kominn til þess að skoða „ný tækifæri“ um allan heim, þar á meðal í Kína, sem sé einn stærsti fjárfestirinn í Bretlandi.

Hann sagði jafnframt að Evrópusambandið hefði ekki í hyggju að „refsa“ Bretum vegna ákvörðunar þeirra um að segja skilið við sambandið.

„Það sem við þurfum nú að gera er að lágmarka efnahagsleg áhrif útgöngunnar á breska hagkerfið til styttri tíma og hámarka ábatann til lengri tíma,“ bætti Hammond við.

Hann viðurkenndi að erlendir leiðtogar hefðu lýst yfir vonbrigðum sínum vegna ákvörðunar Breta.

Kínverjar sjá tækifæri

Kínverskir fjölmiðlar greindu frá því fyrr í mánuðinum að kínverska viðskiptaráðuneytið væri reiðubúið að gera fríverslunarsamning við Breta.

Bresk stjórnvöld hafa jafnframt lýst yfir áhuga sínum á að gera slíkan samning.

Í frétt breska ríkisútvarpsins er bent á að Bretar hafi aldrei unnið að svo stóru verkefni með Kína, sem er næststærsta hagkerfi heims.

AFP

Í slíkum fríverslunarsamningi felst að kínverskar framleiðsluvörur og fjárfestingar fá greiðari aðgang að breskum markaði, en í staðinn munu kínversk stjórnvöld draga úr aðgangshindrunum á mörkuðum sínum.

Hammond segir að útganga Breta úr Evrópusambandinu þýði aukin tækifæri fyrir ríki sem standa utan sambandsins til þess að eiga í viðskiptum við Breta.

„Þegar Bretar yfirgefa Evrópusambandið og verða ekki lengur bundnir reglum þess verður kannski auðveldara að semja við okkur í framtíðinni,“ segir Hammond.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK