Virkja hliðarstrauma orkuvinnslunnar

Albertína segir jarðböðin við Mývatn gott dæmi um vel heppnaða …
Albertína segir jarðböðin við Mývatn gott dæmi um vel heppnaða nýsköpun þar sem saman fara orkuvinnsla og ferðaþjónusta. mbl.is/Baldur Arnarson

Nýju samstarfsverkefni um nýsköpun á sviði orku-, umhverfis- og ferðamála hefur verið hleypt af stokkunum á Norðausturlandi. Verkefnið hefur fengið nafnið EIMUR og hafa Landsvirkjun, Norðurorka, Orkuveita Húsavíkur og Eyþing skuldbundið sig til að láta 100 milljónir króna af hendi rakna til verkefnisins á næstu þremur árum.

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir er nýráðinn framkvæmdastjóri EIMS og segir hún verkefnið enn á fyrstu stigum og í mótun. „En markmiðið er að stuðla að aukinni sjálfbærni með meiri og fjölbreyttari nýtingu orkuauðlinda á Norðurlandi eystra.“ Að EIMI koma einnig atvinnuþróunarfélögin á svæðinu, íslenski ferðaklasinn og íslenski jarðvarmaklasinn.

Tækifæri af ýmsum toga

„Til að byrja með voru ráðnir tveir háskólanemar í sumar sem hafa unnið við að kortleggja tækifærin á svæðinu. Hlutverk EIMS verður nokkuð víðfeðmt og felst í stuttu máli í að skapa jarðveginn fyrir fjölbreyttar rannsóknir, fjölbreyttari nýtingu á svokölluðum hliðarstraumum orkuvinnslunnar, auk samfélagslega tengdra verkefna eins og rafbílavæðingar og aukinnar fjölbreytni í ræktun svo fátt eitt sé nefnt,“ útskýrir Albertína. „Starfsemi EIMS verður þannig frábrugðin ýmsum styrktarsjóðum að því leyti að við munum leika virkara hlutverk í að koma góðum verkefnum í kring.“ Albertína er félagsfræðingur og landfræðingur og er nú að hverfa frá störfum sem atvinnufulltrúi Akureyrarbæjar. Þar áður var hún starfsmaður Nýsköpunarmiðstöðvar þar sem hún hélt FabLab á Ísafirði, auk þess að bera ábyrgð á Evrópuverkefni á sviði orkumála. Til viðbótar við að móta framtíðarstefnuna nánar segir Albertína að meðal næstu verkefna verði að fá fleiri samstarfsaðila að borðinu. „Við horfum líka til þess að afla meira fjármagns til að styðja við verkefnið, bæði innanlands og ekki síður hjá erlendum uppbyggingar- og styrktarsjóðum.“

Snertiflötur við ferðaþjónustu

Vinnan til þessa hefur leitt í ljós að tækifærin eru bæði mörg og spennandi. „Við erum að horfa til fjölbreyttra verkefna sem búa til afurðir úr einhverju sem enginn er að nýta í dag. Áhugavert dæmi um slík verkefni er fyrirtækið Geosilica, en þar hefur tekist að skapa verðmæti úr afurð sem varð til við orkuvinnsluna en enginn var að nýta.“

Eitt sóknarfærið liggur í því að tengja saman orkuframleiðslu og ferðaþjónustuna. „Ég held að þessir tveir atvinnuvegir geti unnið miklu betur og meira saman en þeir hafa gert fram að þessu,“ segir Albertína og nefnir nýja orkusýningu Landsvirkjunar í Ljósafossstöð sem dæmi um hvernig tvinna má orku og ferðaþjónustu saman. „Bláa lónið og jarðböðin á Mývatni eru líka frábær dæmi um hvernig ferðaþjónustan getur nýtt hliðarstrauma orkuvinnslunnar og held ég að allar forsendur séu til að gera enn meira.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK