Hækka yfirtökutilboð í SABMiller

AFP

Bjórframleiðandinn Anheuser-Busch InBev hefur hækkað yfirtökutilboð sitt í keppinautinn SABMiller. Samkvæmt nýja tilboðinu er markaðsvirði SABMiller metið á 79 milljarða punda, en áður hafði AB InBev metið framleiðandann á 70 milljarða punda.

Var tilboðið hækkað um eitt pund á hvern hlut og hljóðar því nú upp á 45 pund á hlut.

Forsvarsmenn SABMiller segjast hafa sest niður með forsvarsmönnum AB InBev í síðustu viku og sammælst um að breyta tilboðinu vegna gengislækkunar pundsins. Pundið hefur hríðfallið í verði eftir að Bretar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu að segja skilið við Evrópusambandið.

Hefur gengi pundsins lækkað um 12% gagnvart Bandaríkjadalnum frá þjóðaratkvæðagreiðslunni 23. júní síðastliðinn.

Fyrirtækin tvö komust að samkomulagi um kaupin í fyrra. Sameinað fyrirtæki verður stærsti bjórframleiðandi heims með um 30% hlutdeild á markaðinum.

Helstu hluthafar í SABMiller sættu sig ekki við fyrra tilboð stjórnar AB InBev og töldu sig fá minna fyrir sinn snúð vegna gengislækkunar pundsins. 

Forsvarsmenn SABMiller sögðust í tilkynningu ætla að ræða við hluthafa sína áður en þeir tækju afstöðu til nýjasta tilboðsins. Frekari tilkynningar væri að vænta.

Forsvarsmenn AB InBev áréttuðu að tilboðið væri algjört lokatilboð.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK