Sala á iPhone dróst saman um 15%

Tim Cook, forstjóri Apple.
Tim Cook, forstjóri Apple. AFP

Sala bandaríska tæknirisans Apple á iPhone-símum dróst saman um 15% á öðrum fjórðungi ársins, en samdrátturinn var þó minni en greinendur höfðu óttast.

Alls seldi Apple 40,4 milljónir iPhone-síma á tímabilinu, en flestir sérfræðingar höfðu gert ráð fyrir því að 40,02 milljónir síma yrðu seldar.

Tim Cook, forstjóri Apple, segir að uppgjörið, sem var birt í gær, sýni að spurn eftir vörum fyrirtækisins sé meiri en búist var við.

Forsvarsmenn fyrirtækisins gera ráð fyrir að salan dragist aftur saman á þriðja fjórðungi ársins og verði þá á milli 45,5 og 47,5 milljarðar dala.

Spurn eftir iPhone-símanum, helsta flaggskipi Apple, hefur minnkað frá því á fyrsta fjórðungi ársins, þegar forsvarsmenn fyrirtækisins tilkynntu að sala á símanum hefði í fyrsta sinn dregist saman frá því að hann var fyrst settur á markað árið 2007.

Um það bil tveir þriðju tekna Apple koma til vegna iPhone-símans.

AFP

Hagnaður Apple dróst saman um 27% á öðrum fjórðungi ársins og nam alls 7,8 milljörðum dala. Tekjurnar lækkuðu um 14,6% á milli ára og voru 42,4 milljarðar dala.

Hægagangur í Kína

Athygli vekur að sala Apple í Kína, Hong Kong og á Taílandi dróst saman um 33%.

Tim Cook benti á að óvissa ríkti í efnahagslífi þessara ríkja.

Fjórðungur tekna fyrirtækisins kemur til vegna sölunnar í Kína. Er kínverski markaðurinn stærri en sá evrópski.

„Það er alveg skýrt að það eru merki um hægagang í kínverska hagkerfinu og við þurfum að vinna okkur úr því,“ sagði Luca Maestri, fjármálastjóri Apple.

„Við skiljum Kína vel og erum enn mjög bjartsýnir á framtíðina þar.“

Styrking Bandaríkjadalsins hafði einnig neikvæð áhrif á afkomu Apple á tímabilinu, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

Fjárfestar virðast þó ekki hafa verið alls kostar óánægðir með uppgjörið, en hlutabréf félagsins hækkuðu um 7% í verði eftir að uppgjörið var birt. Hlutabréfin hafa fallið um næstum því 20% það sem af er árinu.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK