Hagnaðist um 3,2 milljarða

Heildareignir Icelandair Group námu 1,2 milljörðum bandaríkjadala við lok fyrri …
Heildareignir Icelandair Group námu 1,2 milljörðum bandaríkjadala við lok fyrri árshelmings mbl.is/Árni Sæberg

Icelandair Group hagnaðist um 26,2 milljónir bandaríkjadala eftir skatta á öðrum ársfjórðungi. Hagnaðurinn jókst um 17% milli ára en hann jafngildir 3,2 milljörðum króna. Félagið lækkaði afkomuspá sína og að sögn forstjóra Icelandair er það gert vegna þeirrar óvissu sem er á mörkuðum. 

Heildartekjur Icelandair Group jukust um 13% milli ára og voru 331 milljón bandaríkjadala eða rúmir 40 milljarðar króna. EBITDA á öðrum ársfjórðungi var 54,2 milljónir bandaríkjadala sem jafngildir tæpum 6,4 milljörðum króna.

Heildareignir félagsins námu 1,2 milljörðum bandaríkjadala við lok fyrri árshelmings en þær jukust um 17% milli ára. Þá var eiginfjárhlutfall 39% í lok júlí. Handbært fé frá rekstri var 119,6 milljónir bandaríkjadali samanborið við 86,7 milljónir bandaríkjadali árið áður.

Þá var það tilkynnt í gær að félagið myndi færa niður afkomuspá sína fyrir árið og vitnað er í Björgólf Jóhannsson, forstjóra Icelandair, sem segir að það sé gert vegna þeirrar óvissu sem er á mörkuðum.

„Hryðjuverk í Evrópu og niðurstaða atkvæðagreiðslu um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hafa valdið lækkun meðalfargjalda og skapað óvissu sem gerir rekstrarskilyrði flugfélaga erfiðari. Fjárhagsstaða félagsins er sterk og sveigjanleiki félagsins er mikill þrátt fyrir mikinn vöxt á undanförnum árum. Félagið er því vel í stakk búið til þess að bregðast við þeim áskorunum sem tímabundin ókyrrð á mörkuðum veldur og jafnframt til þess að grípa þau tækifæri sem munu skapast til lengri tíma,“ er haft eftir Björgólfi. Bendir hann á að nú sé háannatími í ferðaþjónustu og mikilvægir mánuðir í rekstrinum.

„Fyrirtækið hefur vaxið mikið á undanförnum árum og starfsfólk og samstarfsaðilar hafa ár eftir ár unnið frábært starf við þjónustu við viðskiptavini okkar. Bókunarstaðan í millilandaflugi næstu mánuði er góð og þrátt fyrir lækkun meðalverða eru góðar horfur í rekstri félagsins út árið og til langs tíma litið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK