Leigutekjur jukust um 26%

Stærstu eignir Regins eru Smáralind í Kópavogi og Egilshöll í …
Stærstu eignir Regins eru Smáralind í Kópavogi og Egilshöll í Grafarvogi. mbl.is/Eggert

Rekstrartekjur Regins námu 3.222 milljónum króna á fyrri hluta árs 2016. Leigutekjur jukust um 26% frá fyrra ári en rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir var 2.126 milljónir króna og jókst um 25% frá fyrra ári.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Þar segir einnig að bókfært virði fjárfestingareigna í lok tímabilsins nam 79.015 milljónum króna en matsbreyting var 1.869 milljónir króna. Hagnaður eftir tekjuskatt nam 2.002 milljónum sem jafngildir 65% aukningu frá fyrra ári.

Handbært fé frá rekstri nam 924 milljónum króna. Vaxtaberandi skuldir voru 47.767 milljónir í lok tímabilsins, samanborið við 39.474 milljónir í árslok 2015. Eiginfjárhlutfall Regins er 34%. Hagnaður á hlut fyrir tímabilið er 1,34 en var 0,85 á sama tímabili í fyrra.

Úr tilkynningu Regins:

Rekstur og afkoma

Afkoma Regins á fyrri helmingi árs var góð og í samræmi við áætlun félagsins. Rekstrartekjur námu 3.222 m.kr. og þar af námu leigutekjur 2.946 m.kr. Hækkun leigutekna frá sama tímabili fyrra árs er rúmlega 26%.

Rekstrarhagnaður fyrir söluhagnað, matsbreytingu og afskriftir / EBITDA var 2.126 m.kr. sem samsvarar 25% hækkun samanborið við sama tímabil árið 2015. 

Eignasafn og efnahagur

Eignasafn Regins er fjölbreytt og samanstendur af góðu atvinnuhúsnæði með háu útleiguhlutfalli og traustum leigutökum. Fjöldi fasteigna í lok tímabilsins var 130 og heildarfermetrafjöldi þeirra eigna er um 319 þúsund. Útleiguhlutfall á safni Regins er yfir 97,5% miðað við þær tekjur sem 100% útleiga gæfi.

Stærstu eignir Regins eru verslunarmiðstöðin Smáralind í Kópavogi og Egilshöll í Grafarvogi.

Fasteignasafn Regins er metið á gangvirði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Safnið er metið í lok hvers árs í tengslum við gerð ársreiknings sem og í lok hvers uppgjörstímabils. Matsbreyting á fyrstu 6 mánuðum ársins nam 1.869 m.kr.

Stækkun félagsins og horfur

Uppbygging og stækkun eignasafns félagsins er í samræmi við áætlun og fjárfestingarstefnu þess.

Á tímabilinu fékk félagið afhent tvö fasteignasöfn sem greitt var fyrir með ráðstöfun hlutafjáraukningar sbr. ákvörðun hluthafafundar frá 22. mars 2016 þar sem hlutafé í Regin var aukið um 126.600.000 krónur að nafnverði. Hlutafé í Regin eftir þá aukningu er 1.555.300.000 krónur að nafnverði. Auk framangreinds þá keypti félagið tvö lítil fasteignafélög sem eiga fasteignir á Akureyri. Bókfært virði þeirra fasteigna sem tilheyra framangreindum fjórum fasteignafélögum er um 11.400 m.kr.

Á tímabilinu tilkynnti félagið um samkomulag við Kópavogsbæ og Smárabyggð ehf. um uppbyggingu sunnan Smáralindar á næstu árum. Aðkoma Regins er með þeim hætti að félagið er eigandi um 34% af byggingarétti verkefnisins í gegnum dótturfélag sitt. Eignarhlutur félagsins í Smárabyggð er færður til bókar sem nemur 805 m.kr. á tímabilinu.

Þann 8. júlí sl. tilkynnti félagið um komu H&M í Smáralind 2017 og Hafnartorg 2018, en það eru fyrstu verslanir H&M á Íslandi. Miklar breytingar eiga sér stað í Smáralind en endurskipulagning hófst í byrjun árs. Verslanasamsetning mun breytast með endurskipulögðum rýmum í húsinu. Í rýmum 1. og 2. hæðar Norðurturns Smáralindar, sem Reginn hefur yfir að ráða, mun Íslandsbanki opna útibú sem og World Class opna líkamsræktarstöð í haust.

Tjarnarvellir 11 hafa verið afhentir Þjóðminjasafninu þar sem er sérútbúin aðstaða fyrir safnið. Framkvæmdir eiga sér einnig stað í Hlíðasmára 1 þangað sem sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu mun flytja starfsemi sína í haust.

Horfur í rekstri og skipulagsbreytingar félagsins

Stjórnendur félagsins telja að horfur í rekstri séu góðar og engar vísbendingar eru um annað en að áætlanir félagsins standist í öllum aðalatriðum.

Áherslur í starfsemi félagsins, fyrir utan hefðbundin rekstrarmál, næstu mánuði er eftirfylgni með endurskipulagningu Smáralindar og uppbyggingu Hafnartorgs í miðbæ Reykjavíkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK