Uppsagnir í Perlunni vegna lokunar um næstu áramót

Perlan að vetri
Perlan að vetri mbl.is/Árni Sæberg

Veitingahúsið Perlan, sem rekið hefur hágæða veitingahús og bar á efstu hæð Perlunnar auk kaffiteríu á 4. hæð í rúmlega aldarfjórðung, hættir starfsemi í byrjun nýs árs.

Í staðinn koma verslanir með útivistarfatnað og minjagripi og kaffihús, að því er fram kemur í umfjöllun um þessar breytingar í Perlunni í Morgunblaðinu í dag.

Þar hafa starfað að jafnaði um 100 manns í 60-70 stöðugildum. Í september síðastliðnum var 35 starfsmönnum sagt upp sem voru með þriggja mánaða uppsagnarfrest. Öðru starfsfólki verður sagt upp eftir því sem á líður og uppsagnarfrestir krefjast.

„Þetta verða síðustu jólin okkar í Perlunni og síðustu villibráðarhlaðborðin, síðasta skötuhlaðborðið á Þorláksmessu og síðasta gamlárskvöldsveislan. Það er uppselt á gamlárskvöld,“ sagði Bjarni Ingvar Árnason, veitingamaður og einn eigenda veitingahússins Perlunnar. „Við erum með sama verð og í fyrra og bjóðum gestum okkar að gjöra svo vel og koma! Maturinn í Perlunni hefur aldrei verið betri en nú.“

Styrmir Örn Arnarsson yfirþjónn (t.v.) og Bjarni Ingvar Árnason veitingamaður …
Styrmir Örn Arnarsson yfirþjónn (t.v.) og Bjarni Ingvar Árnason veitingamaður búa sig undir að hætta veitingarekstri í Perlunni um næstu áramót. Bjarni er gjarnan kenndur við Brauðbæ. Hann hefur verið veitingamaður í meira en hálfa öld. mbl.is/Golli

Bjarni segir það vera í sjálfu sér ótrúlegt að jafn vinsælt veitingahús og Perlan er þurfi að loka dyrum sínum fyrir gestum. „En borgin þarf hærri leigu og við skiljum það, allir þurfa sitt. Okkur er gert að rýma húsið fyrir 10. janúar 2017,“ sagði Bjarni. Hann sagði að allar innréttingar og búnaður sem tilheyra veitingarekstrinum yrði fjarlægt.

Perlan var tekin formlega í notkun 21. júní 1991. Bjarni var þá búinn að vera í veitingarekstri frá árinu 1964 þegar hann var 22 ára gamall. Ferill hans sem veitingamanns spannar því meira en hálfa öld.

Bjarni byrjaði veitingarekstur á Þórsgötu 1 þar sem hafði verið kaffistofa sem var kölluð „Kommakaffi“. Hann nefndi veitingastaðinn Brauðbæ og bauð upp á smurbrauð og kaffi og síðar einnig heitan mat. Svo hóf hann að framleiða samlokur sem urðu svo vinsælar að þjóðin hesthúsaði 1,5 milljónir Brauðbæjarsamloka á ári.

Hótel Óðinsvé fylgdi svo í kjölfarið. Bjarni rak einnig kaffihúsið Prikið og fleiri veitingastaði. Þá sá hann um veitingarekstur í Viðeyjarstofu og útvegaði veitingar fyrir veislur í Höfða. Reykjavíkurborg þekkti því vel til Bjarna í Brauðbæ þegar leitað var að veitingamanni til að hefja rekstur í Perlunni.

„Jóhannes Zoega hitaveitustjóri hafði minnst á það við mig hvort ég hefði áhuga á að reka veitingastarfsemi sem hér yrði til húsa,“ sagði Bjarni. Húsinu var síðan ráðstafað til annarra, en það gekk ekki upp.

„Hjörleifur Kvaran borgarlögmaður hringdi svo til mín haustið 1990 og spurði hvort Hótel Óðinsvé væri tilbúið að taka við keflinu. Við sömdum um það á einum eftirmiðdegi og mér vitanlega hafa aldrei komið upp nein vandræði á milli aðila síðan,“ sagði Bjarni. Undirbúningur að opnun Perlunnar hófst strax þá um haustið fyrir rúmum 26 árum.

Ítarlegt viðtal við Bjarna er í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK