11,7 milljarða hagnaður hjá Icelandair Group

Björgólfur segir félagið hafa náð árangri við krefjandi aðstæður og …
Björgólfur segir félagið hafa náð árangri við krefjandi aðstæður og að ýmsir ytri þættir í rekstrarumhverfinu hafi ekki verið félaginu hagfelldir. mbl.is/Árni Sæberg

Hagnaður Icelandair Group hf. á þriðja ársfjórðungi eftir skatta var 102,8 milljónir Bandaríkjadala, þ.e. 11,7 milljarðar íslenskra króna miðað við 103,1 milljónir Bandaríkjadala í fyrra. Heildartekjur jukust um 13% en aukning tekna á föstu gengi var 17%.

Í afkomutilkynningu félagsins kemur fram að 19% fjölgun hafi verið á farþegum í millilandaflugi milli ára og góð sætanýting. EBITDA, rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði, var 161,8 milljónir Bandaríkjadalir eða 18,4 milljarðar íslenskra króna samanborið við 155,6 milljónir Bandaríkjadala á sama ársfjórðungi á síðasta ári.

Þá var eiginfjárhlutfall félagsins 49% í lok september.

„Rekstur félagsins gengur vel og afkoman á þriðja ársfjórðungi, mikilvægasta fjórðungnum hvað afkomu varðar, var mjög góð,“ er haft eftir Björgólfi Jóhannssyni, forstjóra Icelandair Group í afkomutilkynningu. Segir hann mikinn vöxt hafa verið í starfseminni en félagið flutti alls tæplega 1,5 milljónir farþega í millilanda- og innanlandsflugi og hefur ekki flutt fleiri farþega á einum ársfjórðungi.

„Mikil fjölgun ferðamanna til Íslands hefur skilað sér í auknum fjölda erlendra ferðamanna í innanlandsflugi og er áætlað að sú þróun muni halda áfram. Nýting hótela félagsins hefur aldrei verið betri og fraktstarfsemin gengur vel,“ er haft eftir Björgólfi.

„Þessi árangur hefur náðst við krefjandi aðstæður og ýmsir ytri þættir í rekstrarumhverfinu hafa ekki verið félaginu hagfelldir. Meðalfargjöld hafa farið lækkandi í millilandastarfseminni í takt við þróunina hjá öðrum flugfélögum. Bókunarstaðan er engu að síður sterk sem fyrr og í takt við áætlanir okkar.“

Þá segir Björgólfur að félagið muni halda áfram að vaxa á næstu misserum.

„Flugáætlun okkar í millilandaflugi fyrir 2017 er 14% umfangsmeiri en á þessu ári og við gerum ráð fyrir að flytja 4,2 milljónir farþega á árinu. Nýtt hótel verður opnað í miðbæ Reykjavíkur á næsta ári og annað ári síðar. Tvær  breiðþotur bætast í flotann og áframhaldandi fjölgun ferðamanna til Íslands skapar fjölmörg tækifæri fyrir ferðatengda þjónustu. Miklum vexti fylgja fjölmargar áskoranir og starfsfólk félagsins stóð sig frábærlega á þessum annasama tíma. Það eru spennandi tímar framundan hjá félaginu og horfur í rekstri þess eru góðar.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK