Hver greiðsla kostar 94 krónur

Samfélagslegur kostnaður við notkun greiðslukorta er 101 króna á hverja …
Samfélagslegur kostnaður við notkun greiðslukorta er 101 króna á hverja færslu. Fyrir greiðslu með reiðufé er kostnaðurinn 88 krónur. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Samfélagslegur kostnaður við hverja greiðslu hér á landi er um 94 krónur og í heild nemur kostnaður vegna greiðslumiðlunar á Íslandi um 1,4% af vergri landsframleiðslu. Kostnaður samfélagsins er í heild meiri við notkun greiðslukorts, eða 101 króna á hverja greiðslu á móti 88 krónum þegar reiðufé er notað. Þetta kemur fram í ritinu Fjármálainnviðir sem Seðlabankinn gaf út í dag.

Þrátt fyrir að notkun greiðslukorta sé mikil hér á landi vekur lítil notkun debetkorta athygli í samanburði við löndin sem næst okkur liggja. Áætluð notkun debetkorta á Íslandi var um 34% á árinu 2014 og reiðufjár um 20% en til samanburðar var notkun debetkorta í Noregi um 68% og reiðufjár um 17%. Í Danmörku var hlutfallið um 64% á móti 20% og í Svíþjóð um 55% á móti 38%.

Mynd/Seðlabanki Íslands

Gera má því ráð fyrir að rúmlega helmingur kaupa íslenskra heimila á vöru og þjónustu hafi verið staðgreiddur á árinu 2014. Hinn hluti kaupanna eða yfir 40% var greiddur með kreditkorti. Ísland sker sig talsvert frá öðrum Evrópulöndum að þessu leyti, en eins og sjá má í meðfylgjandi mynd er kreditkortanotkun hér á landi langt umfram notkun slíkra korta í samanburðarlöndum.

Eins og fyrr segir kostaði hver færsla með greiðslukorti samfélagið að meðaltali 101 krónu og með reiðufé 88 krónur. Þá er þó ekki talinn með kostnaður sölu- og þjónustuaðila sem vegur þungt í kostnaði við notkun greiðslumiðla, að því er fram kemur í ritinu.

Mynd/Seðlabanki Íslands

Meðalkostnaður af greiðslumiðlun í evrulöndunum er 0,96% af vergri landsframleiðslu, en hér á landi er hann 1,4%. Skýrir Seðlabankinn hærri kostnað hér á landi með færri greiðslum í gegnum greiðslukortakerfi. Einnig er hugsanlegt að meiri kostnaður fylgi kreditkortum en debetkortum hér landi þrátt fyrir að þau séu notuð í mun ríkari mæli en t.d. í Danmörku og Noregi.

Ritið má í heild lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK