Er Zuckerberg á leið í framboð?

Zuckerberg er stofnandi og framkvæmdastjóri Facebook.
Zuckerberg er stofnandi og framkvæmdastjóri Facebook. AFP

Uppi eru hugmyndir þess efnis vestanhafs að Mark  Zuckerberg, stofnandi Facebook, sé farinn að undirbúa forsetaframboð fyrir kosningarnar 2020. Náinn samstarfsfélagi Zuckerberg telur það þó frekar ólíklegt. 

„Þegar að opinber persóna ræður þekktan stjórnmálaráðgjafa og tilkynnir ferðalag um allt landið er hægt að gera ráð fyrir því að hann eða hún sé á leið í framboð. En hvað ef sú persóna er Mark Zuckerberg?“ segir í grein CNN í dag.

Þekkti stjórnmálaráðgjafinn sem blaðamaður CNN talar um er David Plouffe en hann var m.a. kosningastjóri sjálfs Barack Obama, fráfarandi forseta Bandaríkjanna. Samkvæmt tilkynningu frá Zuckerberg á Plouffe að hafa yfirumsjón yfir „mannúðarverkefnum“ Zuckerberg en aðeins nokkrum dögum áður greindi framkvæmdastjórinn frá áramótaheiti sínu um að hitta fólk á árinu frá hverju einasta ríki Bandaríkjanna.

„Eftir mikið umbrotaár, vona ég að með þessari áskorun fari ég út og tali við fleira fólk um hvernig það býr, vinnur og hugsar að framtíðinni,“ skrifaði Zuckerberg á Facebook-síðu sína um áramótin og þótti mörgum hann hljóma skuggalega mikið eins og stjórnmálamaður.

Þar að auki staðfesti Facebook nýlega að Zuckerberg gæti starfað í stjórnsýslunni á sama tíma og hann stjórnar fyrirtækinu svo lengi sem hann á nógu mörg hlutabréf í fyrirtækinu.

Vitnað er í Bradley Tusk, ráðgjafa tæknifyrirtækja og fyrrum kosningastjóra Michael Bloomberg, fyrrverandi borgarstjóra New York borgar sem segir að alla jafna væru þetta augljós merki um að einhver væri á leiðinni í pólitískt framboð. Þó telur Tusk ólíklegt að Zuckerberg hafi áhuga á því þar sem það væri  „skref niður á við“ fyrir þennan unga milljarðamæring.

„Hann hefur svo mikið vald og vægi, bæði í gegnum stöðu hans og auð, að það væru bara nokkur störf sem myndu vera tíma hans virði,“ sagði Tusk. Að mati ráðgjafans væru það líklega aðeins þingflokksformaður, for­seti full­trúa­deild­ar Banda­ríkjaþings eða að fara alla leið og verða forseti Bandaríkjanna.

Þinghús Bandaríkjanna. Tusk telur að aðeins örfá störf þar myndu …
Þinghús Bandaríkjanna. Tusk telur að aðeins örfá störf þar myndu heilla Zuckerberg, þ.e. að vera þingflokksformaður, for­seti full­trúa­deild­ar Banda­ríkjaþings eða að fara alla leið og verða forseti Bandaríkjanna. AFP

Zuckerberg verður 36 ára árið 2020, og verður þá aðeins rétt svo nógu gamall til þess að geta boðið sig fram. Fyrir utan aldurinn efast Tusk um að Zuckerberg hafi „persónuleikann og skapgerðina“ til þess að fara út í forsetaframboð sem bæri árangur. Aðrir sem hafa unnið náið með Zuckerberg telja ólíklegt að hann seti sig í þá stöðu.

„Hann er frekar hlédrægur og sækist ekki eftir athygli eins og náttúrulegur stjórnmálamaður myndir gera,“ sagði Ezra Callahan, einn af fyrstu starfsmönnum Facebook sem starfaði þar til ársins 2010. „Það kæmi mér á óvart ef að honum fyndist pólitíski heimurinn heillandi á einhvern hátt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK