Opna ylströnd skammt frá Egilsstöðum

Stefnt er að opnun á árinu 2019, en vinna við …
Stefnt er að opnun á árinu 2019, en vinna við hönnun er í fullum gangi. Aðstaðan verður byggð upp við uppsprettu Hitaveitu Egilsstaða og Fella í aðeins 4 km. fjarlægð frá alþjóðaflugvellinum á Egilsstöðum og þjónustumiðstöð Austurlands.

Tekist hafa samningar um uppbyggingu og fjármögnun baðstaðar við Urriðavatn hjá Egilsstöðum. Þar verður nýtt hreinasta heita vatn Íslands til að bjóða upp á vandaða upplifun á íslenskri náttúru. Stefnt er að opnun á árinu 2019, en vinna við hönnun er í fullum gangi. Aðstaðan verður byggð upp við uppsprettu Hitaveitu Egilsstaða og Fella í aðeins 4 km. fjarlægð frá alþjóðaflugvellinum á Egilsstöðum og þjónustumiðstöð Austurlands.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Jarðböðin Mývatnssveit ehf. verða stærsti hluthafi félagsins, en aðrir hluthafar eru einstaklingar og fyrirtæki á Austurlandi. Hluthafar í dag eru 11 talsins, en reiknað er með að þeir verði 14 þegar framkvæmdum verður lokið. Verkefnið er að fullu fjármagnað og gera áætlanir ráð fyrir heildarfjárfestingu uppá um 500 milljónir, þar af hafa fengist skuldbindandi loforð fyrir um 280 milljón króna hlutafé að nafnvirði.

Deiliskipulag hefur verið samþykkt auk þess sem samið hefur verið við landeiganda um lóð og rammasamningur gerður við Hitaveitu Egilsstaða og Fella ehf.

Austurland land tækifæranna í ferðaþjónustu

Steingrímur Birgisson verður stjórnarformaður í félaginu, en hann er forstjóri  Bílaleigu Akureyrar og stjórnarformaður Jarðbaðanna Mývatnssveit. Vitnað er í Steingrím sem segir mikil tækifæri í uppbyggingu baðstaðar við Urriðavatn hjá Egilsstöðum og það verði heillandi viðfangsefni að byggja upp baðstað og upplifunarþjónustu þar sem hreinasta heita vatn Íslands er grunnurinn. Vel hafi verið staðið að forvinnu þessa verkefnis og Austurland tvímælalaust land tækifæranna í ferðaþjónustu. Það sé hins vegar krefjandi verkefni að nýta þau tækifæri vel.

Grímur Sæmundsen verður varaformaður stjórnar, en hann er forstjóri Bláa Lónsins, varaformaður stjórnar  Jarðbaðanna í  Mývatnssveit og formaður Samtaka Ferðaþjónustunnar. Grímur segir það blasa við að vöxtur ferðaþjónustunnar og sjálfbærni mótist mjög af því hvernig okkur takist að þróa greinina á öllu Íslandi. Því hafi hann verið mjög áhugasamur um að taka þátt í þessu verkefni sem hafi alla burði til að verða að öflugum segli á Austurlandi.

Magnús Þór Ásmundsson forstjóri Alcoa Fjarðaáls er einnig nýr stjórnarmaður félagsins. Magnús ákvað að taka persónulega þátt í þessu verkefni og segir ástæðu þess þá, að um mjög spennandi verkefni sé að ræða sem geti gert Austurland að enn fjölbreyttari stað til búsetu og heimsóknar.

Þá verða Ívar Ingimarsson og Hilmar Gunnlaugsson einnig í stjórn félagsins, en þeir hafa auk Hafliða H. Hafliðasonar unnið að undirbúningi verkefnisins síðustu ár.

Vitnað er í Björn Ingimarsson bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs sem segir sveitarstjórnina fagna því að verkefnið verði að veruleika, um sé að ræða mikilvægt verkefni fyrir áframhaldandi uppbyggingu Egilsstaða og Austurlands sem áfangastaðar fyrir innlenda sem erlenda ferðamenn, auk þess sem verkefnið muni örugglega efla mjög atvinnulíf á svæðinu. Þá sé gleðiefni að bæði séu heimamenn stórir hluthafar í verkefninu og að reyndustu og hæfustu rekstraraðilar á sviði heilsuferðarþjónustu komi myndarlega að því.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK