Fasteignaverð hefur hækkað um 17% á einu ári

„Hækkanir síðustu 12 mánaða eru mjög miklar og þarf að ...
„Hækkanir síðustu 12 mánaða eru mjög miklar og þarf að fara allt aftur til ársins 2007 til að sjá álíka tölur,“ segir í Hagsjá. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Fasteignaverð á höfuðborgasvæðinu hækkaði um 1,8% milli mánaða í janúar samkvæmt nýjum tölum Þjóðskrár. Þar af hækkaði fjölbýli um 1,7% og sérbýli um 1,9%.

Þetta kemur fram í Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans.

Síðustu 12 mánuði hefur verð á fjölbýli hækkað um 16,3%, sérbýli um 16,5% og er heildarhækkunin 16,3%.

„Hækkanir síðustu 12 mánaða eru mjög miklar og þarf að fara allt aftur til ársins 2007 til að sjá álíka tölur,“ segir í Hagsjá.

Bent er á að verðbólga hafi verið lítil og stöðug síðustu misseri og því hefur raunverð fasteigna hækkað mun meira en ella. Vísitala neysluverðs án húsnæðis í janúar var um 0,9% lægri en í janúar 2015, þannig að allar nafnverðshækkanir á húsnæði síðasta árið koma nú fram sem raunverðshækkun og rúmlega það. Raunverð fasteigna hefur þannig hækkað um rúmlega 17% á einu ári frá janúar 2016 til janúar 2017.

Í Hagsjá kemur fram að á árunum 2011-2013 fylgdust þróun kaupmáttar launa og fasteignaverðs nokkuð náið að. Frá miðju ári 2013 til sama tíma 2015 tók fasteignaverðið fram úr, en sú þróun gekk aðeins til baka frá vorinu 2015 fram til sama tíma 2016.

„Síðan þá hefur fasteignaverð hækkað mun hraðar en kaupmáttur launa. Þar kemur tvennt til, kaupmáttaraukningin er ekki eins hröð og áður og þá hefur fasteignaverðið hækkað meira en áður,“ segir í Hagsjá.

Að sama skapi hefur bilið á milli húsnæðisverðs og byggingarkostnaðar aukist mikið á síðustu mánuðum. Allt frá síðasta vori hefur hallalínan á hlutfalli þessara tveggja stærða farið hratt upp á við. Hækkun vísitölu byggingarkostnaðar milli áranna 2015 og 2016 var 4% á sama tíma og hækkun verðs á fjölbýli var 12%.

„Það er því greinilegt að það verður sífellt hagstæðara að byggja íbúðarhúsnæði.

Þrátt fyrir þessar miklu hækkanir á fasteignaverði er enn dálítið í land með að raunverð fasteigna nái því stigi þar sem það var hæst í október 2007. Raunverð fasteigna er enn um 9% lægra en það varð á árinu 2007. Helsta ástæða þessara miklu verðhækkana er m.a. skortur á framboði á húsnæði. Kaupgeta hefur aukist í takt við aukinn kaupmátt og atvinnu þannig að sífellt fleiri bítast um þær íbúðir sem komast á markað. Eignum á markaði hefur fækkað verulega á síðustu mánuðum og að sama skapi hefur sölutími eigna haldið áfram að styttast. Ekki er að sjá að breyting verði á þessu ástandi á næstu mánuðum,“ segir í Hagsjá.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir