24,5 milljarða gjaldþrot Magnúsar

Samþykktar kröfur í þrotabú Magnúsar Þorsteinssonar hljóða upp á 24,5 …
Samþykktar kröfur í þrotabú Magnúsar Þorsteinssonar hljóða upp á 24,5 milljarða króna. Rax / Ragnar Axelsson

Samþykktar kröfur í þrotabú Magnúsar Þorsteinssonar athafnamanns nema alls 24,5 milljörðum króna samkvæmt upplýsingum frá skiptastjóra búsins. 

Þann 20. mars verður haldinn skiptafundur þar sem kröfuhafar hafa lokatækifæri til að andmæla skiptunum. Gjaldþrotaskiptin hafa tekið tæp átta ár þar sem Magnús var í héraðsdómi Norðurlands eystra úrskurðaður gjaldþrota í maí 2009 að kröfu Straums-Burðaráss.

Magnús flutti lögheimili sitt til Rússlands á svipuðum tíma, eða í apríl 2009. Krafa um gjaldþrotaskipti kom hins vegar fram í mars sama ár. Taldi dómari því að Magnús væri ekki und­anþeg­inn lög­sögu ís­lenskra dóm­stóla þar sem krafan kom fram áður en hann breytti um heimili.

Var lögheimilisflutningurinn túlkaður af sumum sem nokkurs konar flóttatilraun en í yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum sagðist hann harma að litið hefði verið á flutninginn með þeim hætti. „Ég hef haldið uppi málefnalegum og sanngjörnum vörnum í máli mínu og hvorki fyrr né nú áformað að hlaupa frá mínum skyldum,” sagði Magnús.

Magnús keypti Landsbankann á sínum tíma ásamt Björgólfsfeðgum.
Magnús keypti Landsbankann á sínum tíma ásamt Björgólfsfeðgum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Keypti Landsbankann

Magnús Þor­steins­son var um­svifa­mik­ill fjár­fest­ir á árunum fyrir hrun en hann keypti meðal ann­ars Lands­bank­ann á sín­um tíma ásamt Björgólfs­feðgum. Magnús var einnig stjórnarformaður og aðal­eig­andi Avi­on Group, sem átti og rak flug­fé­lög­in Air Atlanta og Excel Airways. Þá keypti Avion Group m.a. Eim­skipa­fé­lagið af Burðarási. 

Magnús byggði upp bjórverksmiðjuna Bravó í Rússlandi ásamt Björgólfsfeðgum og var verksmiðjustjóri þar en fyrirtækið var selt til Heineken árið árið 2002 fyrir 41 milljarð króna.

Milljarður að láni

Krafa Straums-Burðaráss um gjaldþrota­skipt­in var sett fram vegna  láns til Fjár­fest­inga ehf., eign­ar­halds­fé­lags Magnús­ar, upp á rúm­an millj­arð sem veitt var í októ­ber 2005. Lánið átti að end­ur­greiða í einu lagi tveim­ur árum síðar eða 10. októ­ber 2007. Straum­ur-Burðarás fékk í kjöl­far lán­veit­ing­ar­inn­ar að hand­veði bréf í Icelandic Group en þar sem verðmæti bréf­anna nægði ekki, kallaði Straum­ur-Burðarás eft­ir aukn­um trygg­ing­um. Veðkall var gert í fe­brú­ar 2006 og var þá 75 millj­óna króna reiðufjár­inni­stæða sett að hand­veði.

Þá var skil­mál­um upp­haf­lega láns­ins breytt, Magnús Þor­steins­son gerðist ábyrgðaraðili og gjald­dagi var færður aft­ur til 10. októ­ber 2008. Með yf­ir­lýs­ingu sem und­ir­rituð var 10. janú­ar 2008 tókst Magnús Þor­steins­son á hend­ur sjálf­skuld­arábyrgð á greiðslu láns­ins.

Magnús var úrskurðaður gjaldþrota í héraðsdómi Norðurlands eystra árið 2009.
Magnús var úrskurðaður gjaldþrota í héraðsdómi Norðurlands eystra árið 2009. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Fyr­ir­slátt­ur og taf­ir“

Í lok ág­úst 2008 var enn gert veðkall og Straum­ur-Burðarás fór fram á frek­ari trygg­ing­ar. Á þeim tíma var Icelandic Group af­skráð úr Kaup­höll og eng­inn skipu­leg­ur verðbréfa­markaður var þannig með hluta­bréf í fé­lag­inu. Straum­ur-Burðarás mátu það svo að aug­ljóst væri að markaðsverð veðsettra bréfa í Icelandic Group væri langt frá því að upp­fylla skil­yrði um trygg­inga­mörk.

Lánið var síðan gjald­fellt 2. sept­em­ber 2008 og í kjöl­farið var höfðað inn­heimtu­mál á hend­ur Magnúsi.

Í gjaldþrota­úrsk­urði héraðsdóms Norður­lands eystra sagði að Straum­ur-Burðarás teldi ljóst að máls­úr­slit úr inn­heimtu­mál­inu myndi drag­ast veru­lega vegna mál­svarna Magnús­ar, sem að mati Straums-Burðaráss einkenndust af „fyr­ir­slætti og viðleitni til að tefja málið.“

Straum­ur-Burðarás krafðist þess 6. fe­brú­ar 2009 að eign­ir Magnús­ar yrðu kyrr­sett­ar til trygg­ing­ar skuld­inni en gerðinni lauk án ár­ang­urs 20. fe­brú­ar sama ár.

Líkt og áður segir fór Straumur-Burðarás að lokum fram á gjaldþrotaskipti 2. mars 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK