Björgólfur meðal ríkustu manna heims

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson. mbl.is/RAX

Björgólfur Thor Björgólfsson er eini íslenski maðurinn á lista Forbes yfir ríkasta fólk heims. Er hann í 1.161 sæti og metinn á 1,8 milljarð Bandaríkjadala, eða um 195 milljarða íslenskra króna.

Til þess að komast inn á lista Forbes þarftu að eiga einn milljarð Bandaríkjadala. Björgólfur náði þeim áfanga árið 2009 en datt síðan beint út af listanum. Hann komst aftur á blað árið 2015 og hefur átt fast sæti síðan. Í fyrra var hann metinn á 1,6 milljarð dala og árið 2015 var hann metinn á 1,3 milljarða dala. Er því ljóst að auðævin fara vaxandi.

Í umfjöllun Forbes um Björgólf segir að hann hafi orðið ríkur á Bravo bjórverksmiðjunni í Rússlandi sem seld var til Heineken árið 2002. Ágóðinn hafi verið notaður í kaupæði á Íslandi og í Austur-Evrópu. Þá hafi hann tapað næstum öllu í fjármálakreppunni. Segir Forbes að Björgólfur Thor hafi í kjölfarið verið gerður að blóraböggli í ástandinu á Íslandi og beðið mikinn álitshnekki. Bent er á að afi hans og pabbi hafi báðir orðið gjaldþrota og að Björgólfur hafi verið staðráðinn í að komast hjá sömu örlögum. Gerði hann því flókið samkomulag við kröfuhafa er leyfði honum að halda stórum hlut í nokkrum mikilvægum eignum, þar á meðal fjarskiptafyrirtækinu Play, sem í dag er verðmætasta eignin hans. Síðan hafi leiðin legið upp á við.

Zuckerberg kominn upp í 5. sæti

Bill Gates situr sem áður í fyrsta sæti lista Forbes og er Jeff Bezoz, stofnandi Amazon í öðru sæti. Fjárfestirinn Warren Buffet situr í þriðja sæti og Amancio Ortega, stofnandi Inditex, móðurfélags Zöru, er í fjórða sæti. Þá er Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook kominn upp í fimmta sæti. Mexíkóski auðjöfurinn Carlos Slim, sem einu sinni var ríkasti maður heims, er hins vegar kominn niður í sjötta sæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK