Laun hafa hækkað um 20%

Vísbendingar eru um að launaskrið hafi verið verulegt á síðustu tveimur árum. Sé gengið út frá að meðalhækkun hafi verið 4,5% í upphafi samningstímabilsins er heildarhækkun til þessa samkvæmt kjarasamningum um 11%. Hækkun launavísitölunnar frá árslokum 2014 er hins vegar orðin 20,3%.

Launavísitalan hækkaði um 0,5% milli janúar og febrúar og alls hefur launavísitalan hækkað um 5,5% frá febrúar 2016. Verulega hefur hægt á hækkunartaktinum frá aprílmánuði þegar árshækkunin náði hámarki í 13,4%. Í takt við minni launahækkanir lækkaði kaupmáttur lítillega í febrúar, en var engu að síður 3,5% meiri þá en var ári fyrr. Þetta kemur fram í hagsjá hagfræðideildar Landsbankans.

„Árið 2016 var nokkuð einstakt bæði hvað varðar launaþróun og aukningu kaupmáttar. Launavísitalan, sem mælir þróun meðallauna í landinu á vinnustund, hafði ekki hækkað meira síðasta aldarfjórðung þar á undan. Launahækkunartakturinn fór sífellt hækkandi frá vorinu 2015 fram á sama tímabil 2016 og fór árstakturinn yfir 13% vorið 2016.

Þessar miklu launabreytingar á árinu 2016 skiluðu mikilli kaupmáttaraukningu þar sem verðbólga var sögulega lág á þessum tíma. Kaupmáttur meðallauna hækkaði þannig um tæp 10% milli 2015 og 2016. Meðalbreyting kaupmáttar síðasta aldarfjórðunginn var 1,8% hækkun á ári. Kaupmáttaraukningin 2016 var því rúmlega fimm sinnum meiri en meðaltal síðasta aldarfjórðungs.

Kaupmáttur launavísitölu fór hæst í ágúst 2008 og náði þeirri stöðu aftur í nóvember 2014. Frá nóvember 2014 til ársloka 2016 hefur kaupmátturinn hækkað um rúm 15% og var hærri en nokkru sinni fyrr í janúar 2017,“ segir í hagsjá Landsbankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK