Neituðu að tjá sig

Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. mbl.is/Ómar

Illa gekk að fá helstu persónur og leikendur til þess að gefa skýrslu um kaup þýska bankans  Hauck & Aufhäuser Privatbankiers KGaA í kaupum á 45,8% eignarhlut ríkisins í Búnaðarbanka Íslands. Leita þurfti ítrekað til dómstóla til þess að fá svör og aðrir báru fyrir sig bankaleynd. Þetta er meðal þess sem kemur fram skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um sölu á hlut ríkisins í bankanum. 

Á starfstíma nefndarinnar neytti nefndin heimildar í lögum um rannsóknarnefndir, til að taka skýrslur af einstaklingum. Nær allar skýrslurnar voru teknar upp í hljóði og mynd, þar á meðal allar þær sem rannsóknarnefndin taldi mikilvægastar í ljósi rannsóknarefnisins.

Guðmundur Hjaltason og Þórður Bogason, verjandi hans.
Guðmundur Hjaltason og Þórður Bogason, verjandi hans. Morgunblaðið/Styrmir Kári

Fjórir einstaklingar, Ólafur Ólafsson, fyrrverandi stjórnarformaður Eglu hf., Guðmundur Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóri sama félags, Sigurður Einarsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings hf. og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri sama fyrirtækis mættu ekki til boðaðrar skýrslutöku á vegum nefndarinnar.

Af þeim sökum beindi rannsóknarnefndin því erindi, dags. 22. nóvember 2016, til Héraðsdóms Reykjavíkur að tekin yrði skýrsla af þessum einstaklingum. Í þinghaldi fyrir Héraðsdómi 23. nóvember 2016 kröfðust Ólafur, Guðmundur og Hreiðar Már þess að dómari í málinu viki sæti. Með úrskurði sem kveðinn var upp samdægurs var þessari kröfu hafnað. Ólafur, Guðmundur og Hreiðar Már kærðu úrskurðinn til Hæstaréttar sama dag.

28. nóvember 2016 staðfesti Hæstiréttur úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Þegar beiðni rannsóknarnefndar var tekin aftur fyrir í Héraðsdómi 8. desember 2016 báru Guðmundur og Ólafur brigður á að þeim væri skylt að svara spurningum nefndarinnar. Byggðist málflutningur þeirra á því að Alþingi hefði ekki haft heimild til að mæla fyrir um rannsókn á þátttöku Hauck & Aufhäuser í kaupum á 45,8% eignarhlut íslenska ríkisins í Búnaðarbanka Íslands hf. þar sem slíkt samræmdist ekki ákvæðum laga. Þá töldu þeir að við meðferð málsins hefði ekki verið gætt réttinda þeirra að lögum.

Með úrskurði, dags. 15. desember 2016, hafnaði Héraðsdómur Reykjavíkur málatilbúnaði þeirra í tengslum við heimild Alþingis til að mæla fyrir um skipun nefndarinnar og þar með heimild nefndarinnar til að rannsaka málið á grundvelli laga nr. 68/2011.

Héraðsdómur taldi hins vegar að þegar litið væri til viðfangsefnis rannsóknarinnar, stöðu Guðmundar og Ólafs við kaupin á Búnaðarbanka Íslands hf., svo og afstöðu þeirra til beiðni rannsóknarnefndarinnar um að þeir gæfu skýrslu fyrir dómi, yrði að líta svo á að þeim væri í raun gert að vitna gegn sjálfum sér í máli sem gæti valdið þeim alvarlegum mannorðshnekki.

Taldi Héraðsdómur að við þessar aðstæður gæti þeim ekki verið skylt, gegn vilja sínum, að gefa skýrslu sem vitni með þeim skyldum og þeirri ábyrgð sem því fylgdi að lögum. Þar sem tilefni rannsóknarinnar beindist í raun að framgöngu þeirra í viðskiptunum taldi Héraðsdómur að 4. mgr. 10. gr. laga nr. 68/2011 og 1. mgr. 118. gr. laga nr. 88/2008 megnuðu ekki að tryggja þeim þá réttarvernd sem fælist í meginreglunni um þagnarrétt, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar um réttláta málsmeðferð fyrir dómi. Í þessu ljósi yrði að játa Guðmundi og Ólafi heimild til þess að skorast með öllu undan því að gefa vitnaskýrslu fyrir dómi í málinu.

Sigurður Einarsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings hf. og Hreiðar Már Sigurðsson, …
Sigurður Einarsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings hf. og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóri sama fyrirtækis mættu ekki í boðaða skýrslutöku. mbl.is/Árni Sæberg

Rannsóknarnefndin skaut úrskurðum Héraðsdóms til Hæstaréttar með kæru 16. desember þar sem þess var krafist að skýrslutakan af Guðmundi og Ólafi færi fram. Hæstiréttur féllst á kröfur nefndarinnar með dómum sem kveðnir voru upp 17. janúar 2017. Taldi Hæstiréttur að ekki yrði fyrirfram úr því skorið hvort spurningar sem rannsóknarnefndin hygðist leggja fyrir Guðmund og Ólaf væru þess eðlis að ákvæði 1. mgr. 118. gr. laga nr. 88/2008 og 4. mgr. 10. gr. laga nr. 68/2011 tæki til þeirra, en heimild til handa Guðmundi og Ólafi til þess að skorast með öllu undan því að gefa vitnaskýrslu fyrir dómi yrði ekki fundin stoð í þessum lagaákvæðum.

Í kjölfarið tók rannsóknarnefndin skýrslu af Ólafi Ólafssyni og Hreiðari Má Sigurðssyni í Héraðsdómi Reykjavíkur 30. janúar 2017. Þann 1. febrúar 2017 tók nefndin skýrslu af Sigurði Einarssyni en 8. febrúar af Guðmundi Hjaltasyni.

Rannsóknarnefndin ræddi enn fremur við nokkra erlenda aðila sem féllu ekki undir ákvæði laga nr. 168/2011 um skýrslutökur fyrir nefndinni. Meðal þeirra voru Helmut Landwehr, fyrrverandi meðeigandi í Hauck & Aufhäuser, sem nefndin ræddi við 4. október 2016. Þá ræddi nefndin við Edward Williams, fyrrverandi starfsmann HSBC-banka, hinn 12. október 2016, en hann var framkvæmdanefnd um einkavæðingu og íslenska ríkinu til ráðgjafar við sölu hlutarins í Búnaðarbankanum.

Zeil og Eggert báru fyrir sig bankaleynd og Gatti og Darpe svöruðu ekki

Rannsóknarnefndin óskaði einnig eftir að ræða við Peter Gatti, fyrrverandi framkvæmdastjóra Hauck & Aufhäuser, Martin Zeil, fyrrverandi forstöðumann lögfræðisviðs bankans, Ralf Darpe, starfsmann Société Générale og Eggert Jónas Hilmarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra lögfræðisviðs dótturfélags Kaupþings hf., og síðar Kaupþings banka hf., í Lúxemborg, Kaupthing Bank Luxembourg S.A.11

Þeir Zeil og Eggert kváðust ekki getað svarað fyrirspurnum nefndarinnar vegna reglna um bankaleynd í Lúxemborg og Þýskalandi.12 Peter Gatti og Ralf Darpe svöruðu hins vegar ekki erindum nefndarinnar. Í ljósi þeirra upplýsinga sem Zeil og Eggert veittu um þagnarskyldu samkvæmt fyrrnefndum erlendum lögum og þess að nefndin hefur ekki valdheimildir til að afla slíkra upplýsinga utan íslenskrar lögsögu taldi nefndin ekki tilefni til að freista þess frekar að fá aðra erlenda aðila í Þýskalandi og Lúxemborg til að ræða við nefndina.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK