Allt Kaupþingi að kenna

Karen Millen merkið.
Karen Millen merkið. mbl.is/Golli

Karen Millen, annar stofnenda samnefndrar tískuvörukeðju, hefur verið lýst gjaldþrota vegna skulda við skattinn. Hún sakar Kaupþing um að bera ábyrgð á öllum sínum óförum.

Times og Daily Mail fjalla um mál Millen í gær en hún stofnaði fyrstu verslun sína, ásamt þáverandi eiginmanni sínum, Kevin Stanford, fyrir tæpum 35 árum. Hún hafði verið dæmd til þess að greiða skattinum sex milljónir punda, sem svarar til 842 milljóna króna, fyrir að svíkja undan skatti með því að nýta sér skattaskjól.

Times greinir frá því að hún hafi verið lýst gjaldþrota fyrir dómi á þriðjudag og eigi á hættu að missa heimili sitt í Kent. Húseign hennar er metin á 3 milljónir punda eða rúmlega 420 milljónir króna.

Karen Millen.
Karen Millen. Skjáskot af Twitter

Millen segist vera niðurbrotin vegna þessa og að hún sé fórnarlamb fjársvika íslenska bankans Kaupþings sem fjármagnaði kaup Baugs á fyrirtæki hennar árið 2004. Kaupverðið var 95 milljónir punda (13,3 milljarðar króna). Hún segir að Kaupþing hafi komið í veg fyrir að hún gæti byrjað upp á nýtt. Vísar hún þar til niðurstöðu dómstóls síðasta sumar um að hún megi ekki nota nafnið sitt yfir nýtt fyr­ir­tæki í henn­ar eigu.

Þegar Millen seldi versl­un­ar­keðjuna til Baugs árið 2004 seldi hún frá sér rétt­inn til þess að nota nafnið sitt í tengsl­um við önn­ur fyr­ir­tæki í framtíðinni. Í kjöl­far gjaldþrots Baugs og end­ur­skipu­lagn­ing­ar Kar­en Millen Hold­ings, sem hafði verið í um­sjá stjórn­enda Kaupþings, ákvað Millen að reyna að fá nafnið sitt til baka og leitaði rétt­ar síns. Við rétt­ar­höld­in hélt Millen því fram að hún hefði tapað mikl­um fjár­hæðum vegna falls Baugs og sagðist vilja nota Kar­en Millen-nafnið í öðrum geira, en hún ætl­ar sér nú að stofna svo­kallað lífs­stíls­fyr­ir­tæki sem fram­leiðir heim­il­is­vör­ur.

Að mati dóm­ara í mál­inu myndi það þó skapa of mik­inn rugl­ing ef Millen fengi að kalla nýja merkið einnig Kar­en Millen, þar sem upp­haf­lega Kar­en Millen-keðjan er enn starf­andi.

Daily Mail hefur eftir Millen að undanfarin níu ár hafi einkennst af stöðugum lagadeilum gegn Kaupþingi. Hún hafi reynt að fá réttlætinu fullnægt án árangurs. Þetta hafi tekið sinn toll á heilsu hennar en hún ætli sér að horfa fram á við og byrja frá grunni.

Samkvæmt Times á Millen að hafa sagt að endurskoðandi hennar hafi mælt með því við hana árið 2001 að taka þátt í skattaundanskotum sem ganga undir heitinu Round the World. Með því að taka þátt var fólki heitið því að það gæti sloppið við að greiða skatta heima fyrir með því að skrá eignir sínar á Máritaníu.

Breski skatturinn ákvað árið 2010 að láta til skarar skríða gegn þessum skattsvikurum og var þeim gert að greiða skatta í heimalandinu.

Millen og fyrrverandi eiginmaður hennar, Kevin Stanford, voru mjög áberandi í íslensku viðskiptalífi fyrir hrun en þau tengdust Baugi og dótturfélögum þess sem og Kaupþingi á margvíslegan hátt.

Daily Mail

Times

Dorrit Moussaieff og Ingibjörg Pálmadóttir voru meðal gesta á tískusýningu …
Dorrit Moussaieff og Ingibjörg Pálmadóttir voru meðal gesta á tískusýningu Karen Millen á Íslandi fyrir nokkrum árum. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK