Karlar 91% þeirra sem fara með fé á Íslandi

Jafnrétti kynjanna er ekki kvennamál. Frumvarp um jafnlaunavottun gæti orðið …
Jafnrétti kynjanna er ekki kvennamál. Frumvarp um jafnlaunavottun gæti orðið að lögum á vorþinginu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Níutíu og eitt prósent þeirra sem fara með fé á Íslandi eru karlar, að því er fram kom í máli Ragnhildar Steinunnar Jónsdóttur á morgunfundi Samtaka atvinnulífsins og Íslandsbanka um jafnréttismál sem haldinn var á Hilton Nordica í vikunni, undir yfirskriftinni „Erum við forystuþjóð“.

Fundurinn hófst með því að Ragnhildur Steinunn fór yfir helstu viðfangsefni bókarinnar Forystuþjóð, sem hún skrifaði ásamt Eddu Hermannsdóttur, sem stjórnaði pallborði ráðstefnunnar.

Meðal þess sem fram kom í yfirferð Ragnhildar var að hér á Íslandi væri lagalegt jafnrétti mikið, en pottur væri þó enn víða brotinn í jafnréttismálum. Nefndi hún að tvær konur stjórnuðu íslenskum bönkum og aldrei hafi verið fleiri konur á Alþingi en nú er. Þrír æðstu stjórnendur Seðlabanka Íslands væru hinsvegar karlar, auk fjármálaráðherra sem væri karl, nær allir stjórnendur lífeyrissjóða væru karlar, og aðeins 9% framkvæmdastjóra stórra fyrirtækja á Íslandi væru konur.

Erfiðara fyrir konur að verja ákvarðanir fyrirtækis í fjölmiðlum

Ragnhildur greip niður í bókina Forystuþjóð og vitnaði í Sigríði Margréti Oddsdóttur, forstjóra Já, sem segir þar að samkvæmt samskiptaáætlun fyrirtækisins ætti hún að vera minna í fjölmiðlum, þar sem rótgróin staðalímynd kvenna segi að konur eigi erfiðara en karlar með að verja erfiðar ákvarðanir fyrirtækis í fjölmiðlum.

Ragnhildur vitnaði ennfremur í orð Kára Stefánssonar, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, í bókinni þar sem hann segir að heili karla og kvenna virki mismunandi, og það skýri af hverju kynin veljist í mismunandi störf.

Hvað sjávarútveg varðar þá segir Þorsteinn Már Baldvinsson í bókinni að sjávarútvegurinn sé á skjön við flestar greinar hvað kynjamál varðar, konur sæki síður á sjó og sæki síður í sjávarútvegsfræði.

Ragnhildur lauk máli sínu með því að segja að jafnrétti kynjanna væri ekki kvennamál, þó svo að nánast allir fundargestir væru konur, og einhver hafði á orði að þarna á morgunfundinum töluðu „konur við konur“.

Karlar taki meiri ábyrgð

Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, sagði í pallborðsumræðum að verkefni væri framundan í jafnlaunavottun í fyrirtækjum, en fyrir Alþingi liggur nú frumvarp um slíka vottun. Brynja Baldursdóttir, forstjóri Creditinfo, sagði að mikilvægt væri að karlarnir tækju meiri ábyrgð á fjölskyldu og börnum svo annar aðilinn endaði ekki með að þurfa að „fórna einhverju“.

Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, sagði að starfið þyrfti að hefjast strax í leikskóla. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sagðist ekki hafa fundið fyrir ójafnrétti fyrr en hún kom á vinnumarkaðinn. Hún sagði einnig að mögulega skiluðu umræðurnar um kynjakvóta og jafnlaunavottun meiru en reglurnar sjálfar. Birna Einarsdóttir, forstjóri Íslandsbanka, sagði að bankinn hefði lagfært laun 10-20 kvenna í kjölfar jafnlaunavottunar fyrir einu og hálfu ári, það hefði opnað augu hennar og verið góð æfing.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK