Betri rekstrarniðurstaða en von var á

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Ómarsson

Rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar, A- og B-hluta, var jákvæð um 26.372 milljónir króna en áætlanir gerðu ráð fyrir jákvæðri niðurstöðu um 11.673 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg en ársreikningur borgarinnar fyrir árið 2016 var kynntur í gær.

Rekstur Reykjavíkurborgar skiptist í A-hluta og B-hluta. Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Um er að ræða Aðalsjóð, sem heldur utan um rekstur fagsviða, Eignasjóð og Bílastæðasjóð.

Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu borgarinnar, en rekstur þeirra er að stofni til fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtækin eru: Orkuveita Reykjavíkur, Faxaflóahafnir sf., Félagsbústaðir hf., Íþrótta- og sýningahöllin hf., Malbikunarstöðin Höfði hf., Slökkvilið höfuðborgar­svæðisins bs., Sorpa bs. og Strætó bs, auk Aflvaka hf og Jörundar ehf.

Rekstrarniðurstaða A-hluta var rúmum tveimur milljörðum betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Kemur fram að það skýrist einkum af lægri rekstrarkostnaði og hærri rekstrartekjum. 

Öll fagsvið borgarinnar voru innan fjárheimilda en fagsviðin halda utan um málaflokka eins og skóla- og velferðarmál sem og umhirðu og framkvæmdir.

„Ég er stoltur af þessari niðurstöðu. Málaflokkar borgarinnar og fyrirtæki skila öll góðri niðurstöðu, eins og ársreikningurinn ber með sér. Þessi mikli viðsnúningur er ávöxtur gríðarlegrar vinnu fjölmargra starfsmanna og stjórnenda og fyrir það vil ég þakka. Skuldir lækka, hagræðingarmarkmið okkar hafa náðst og fjárhagsstaða borgarinnar er sterk. Þessi mikla vinna hefur skilað góðri niðurstöðu og mun skila enn meiru á komandi árum,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK