Við höfum efni á því að taka áhættu

„Það er munurinn á alvöru viðburðafyrirtækjum og hinum; menn verða …
„Það er munurinn á alvöru viðburðafyrirtækjum og hinum; menn verða að geta tekið á sig tap öðru hvoru og haldið ótrauðir áfram, án þess að það bitni á gæðum tónleika eða öðru,“ segir Ísleifur Þórhallsson. mbl.is/Eggert

Ísleifur Þórhallsson hefur alla sína tíð unnið í afþreyingargeiranum og er ábyrgur fyrir því að Íslendingar hafa fengið að sjá listamenn eins og Justin Bieber, Justin Timberlake og Eagles á sviði hér á landi. Ísleifur er nú annar eigenda viðburðafyrirtækisins Senu Live sem hefur vaxið hratt frá því fyrirtækið var stofnað á síðasta ári. Velta Senu Live á síðasta ári nam 800 milljónum króna.

„Þetta byrjaði í raun og veru þegar ég fór að vinna í plötubúð hjá Steinari Berg Ísleifssyni móðurbróður mínum og síðar í vídeóleigunni hans. Það voru fyrstu störfin sem ég fékk á meðan jafnaldrar mínir voru í unglingavinnunni. Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á tónlist og kvikmyndum, þetta hefur alltaf togað í mig,“ segir Ísleifur í samtali við ViðskiptaMoggann.

Ísleifur gekk í Verslunarskólann og skráði sig svo í hagfræði. „Ég náði hins vegar aldrei að klára hana almennilega, því ég var farinn að sýsla svo mikið í ýmsu öðru. Meðal annars gerðist ég grafískur hönnuður á tímabili, þó að ég sé eingöngu sjálflærður á því sviði. Skyndilega var ég farinn að hanna plötuumslög og plaköt fyrir íslenskar bíómyndir eins og kvikmyndina Stikkfrí til dæmis og safnplötuna Nælur. Verkefnin byrjuðu bara að hlaðast upp og þetta vatt upp á sig. Samhliða byrjaði maður að prófa að flytja inn plötusnúða að utan, eitt kvöld hér og annað þar. Það vatt svo upp á sig líka.“

Ísleifur réð sig sem grafískan hönnuð hjá Sambíóunum upp úr tvítugu, en var fljótlega farinn að vinna einnig í markaðsdeild fyrirtækisins. „Þaðan fór ég svo yfir á SkjáEinn. Árni Vigfússon sjónvarpsstjóri réð mig þangað nokkrum mánuðum eftir að Skjárinn hóf starfsemi. Þaðan lá svo leiðin til Friðriks Þórs Friðrikssonar kvikmyndagerðarmanns en ég vann við að hjálpa honum að markaðssetja kvikmyndirnar hans meðal annars. Það er svo Friðriki að þakka að ég stofnaði mitt fyrsta fyrirtæki, Græna ljósið, en hugmyndin á bak við það var að finna listrænar gæðakvikmyndir og flytja þær til landsins. Við unnum svo með kvikmyndahúsunum og fengum hjá þeim bíósali undir sýningar á myndunum. Svo áttum við einnig DVD- og sjónvarpsréttinn fyrir viðkomandi myndir og gátum selt hann á íslensku sjónvarpsstöðvarnar. Maður gerði sér því eins mikinn mat úr þessu og hægt var.

Á þessum tíma sem ég byrjaði með Græna ljósið fannst mér vera pláss á markaðnum fyrir svona starfsemi, margar góðar kvikmyndir væru gerðar sem ekki rötuðu hingað til lands í kvikmyndahús. Þannig að það má segja að ég hafi verið að rembast við að komast inn í þetta rými sem ég taldi vera á markaðnum, enda mikill kvikmyndaáhugamaður. Það var samt ekki auðvelt að láta þetta bera sig. Fljótlega stofnaði ég svo annað fyrirtæki til hliðar við Græna ljósið, Event, sem var á fullu að flytja inn listamenn og halda viðburði,“ segir Ísleifur.

12 ár eru síðan Græna ljósið var stofnað. Það fyrirtæki liggur nú í dvala að sögn Ísleifs, enda er grundvöllurinn fyrir rekstri þess orðinn veikur. Bíó paradís við Hverfisgötu hefur tekið við keflinu, en það félag hefur það fram yfir Græna ljósið að hafa yfir kvikmyndahúsi að ráða, sem og styrkjum og stuðningi frá Reykjavíkurborg meðal annars.

Duttu í lukkupottinn með Intouchables

Spurður um hápunkta í starfi Græna ljóssins segir Ísleifur að margar myndir hafi gengið vel, en dýralífsmyndin March of the Penguins hafi verið langaðsóknarmest. „Ég var staddur á kvikmyndahátíðinni í Berlín þegar ég sá þessa mörgæsamynd sem mér leist svo vel á að ég keypti dreifingarréttinn fyrir Ísland. Myndin sló svo í gegn hér á landi. Annar hápunktur, sem var reyndar eftir að ég var kominn með fyrirtækið inn í Senu, var þegar við duttum svakalega í lukkupottinn með frönsku myndina Intouchables. Hún sló öll met og 60 þúsund manns komu að sjá hana, sem er svipað margir og koma að sjá James Bond-myndir alla jafna. Það var alveg ótrúlegt ævintýri. Við höfðum trú á því að hún gæti náð 10 þúsund manns í aðsókn, þannig að sexfaldur sá fjöldi var framar öllum vonum. The Intouchables heltók alla og varð algjört æði hér á landi.“

Ísleifur segir, eins og kom fram hér að framan, að Græna ljósið og Event hafi runnið saman við Senu á endanum. „Það var mikil bjartsýni að halda að það væri hægt að gera rekstur úr því að flytja inn listrænar kvikmyndir til Íslands,“ segir Ísleifur og skellir upp úr. „En á þessum tíma sem ég var að gera þetta voru möguleikarnir aðeins meiri en þeir eru í dag. Þá voru ekki komnar þessar alþjóðlegu streymisveitur eins og Netflix, Amazon og Hulu og öll sú bylting. Þannig að það var aðeins meiri markaður, og ekki allt galopið á netinu milli landa eins og er í dag.“

Þrátt fyrir að oft hafi gengið vel í Græna ljósinu segir Ísleifur að erfitt sé að vera einyrki í svona rekstri. „Það var því mjög gott að fara með þetta inn í Senu. Sena er öflugt fyrirtæki og þar fékk ég allan stuðning sem ég þurfti og aðgang að fólki með mikla þekkingu, reynslu og sambönd. Ég endaði svo á því að verða markaðsstjóri þar og á tímabili lenti tónlistardeildin líka á mínu borði. Fyrir rúmu ári hætti ég síðan í öllum störfum hjá Senu og fór að einbeita mér að viðburðunum. Þeir voru settir í sér fyrirtæki sem heitir Sena Live, sem ég á orðið 20% í á móti Senu sem á 80%.“

Ísleifur segir að Sena Live hafi orðið til í kjölfar þess að Jón Diðrik Jónsson, sem var stærsti hluthafi Senu á þeim tíma, keypti alla aðra hluthafa út, í nóvember 2015. „Þá fórum við að tala saman um þetta.“

Ísleifur segir aðspurður að fyrirkomulagið varðandi Senu Live sé gott. „Nú er ég hættur öllu öðru og næ að einbeita mér að þessu. Enda var kominn tími á það, okkur bjóðast svo margir viðburðir. Maður þurfti bara að ná fókus, en eins og ég segi þá er ég með þennan góða stuðning frá Jóni Diðrik og starfsfólki Senu. Þetta er mjög öflugt samstarf.“

Uppgangur í gríninu

Sena Live er viðburðafyrirtæki sem er til í að bjóða upp á „hvaða viðburði sem er“ að sögn Ísleifs. „Okkar sérfræðigrein eru þó líklega tónleikar með erlendum aðilum. Það má segja að það sé hjartað í fyrirtækinu. Við bjóðum samt upp á þó nokkuð af íslenskum tónleikum líka, eins og Jólagesti Björgvins, tónleika með Ladda og Gunna Þórðar og svo framvegis. Styrkur fyrirtækisins er orðsporið sem er búið að byggja upp úti í útlöndum, auk þess sem við búum yfir ákveðnum fjárstyrk, sem er nauðsynlegur til að geta flutt til landsins stórstjörnur eins og Justin Timbelake og Justin Bieber. Það þarf að millifæra ansi stórar upphæðir til umboðsfyrirtækjanna áður en farið er af stað. Við höfum efni á því að taka svona áhættu.“

Ísleifur segir að fyrirtækið sé sífellt að prófa sig áfram hvað viðburðina varðar til að sjá hvað virkar og hvað ekki. „Fyrir nokkrum árum urðum við varir við mikinn uppgang í uppistandi um allan heim og fórum inn á þá braut. Það hefur gengið mjög vel og okkur hefur gengið vel að byggja upp sambönd. Í dag erum við með góðan aðgang að helstu umboðsmönnum grínista.“

Hann segir að uppistandssýningar Senu Live hafi gengið sérdeilis vel. „Ricky Gervais fyllti Eldborgarsalinn tvisvar og hefði getað selt miklu meira. Það seldist upp í tvær fullar Laugardalshallir hjá Jeff Dunham og Jimmy Carr fyllti fjögur Háskólabíó eins og að drekka vatn. Eddie Izzard er búinn að koma tvisvar á stuttum tíma og það varð uppselt í Eldborg í Hörpu á stundinni í bæði skiptin. Þannig að þetta gengur ansi vel. Svo höfum við farið af stað með Iceland Comedy Festival, en þar erum við að að byggja upp nýja hátíð á þessu sviði og gefum okkur nokkur ár til þess. Við höfum haldið hana tvisvar og stefnum á að halda hátíðina á ný í október nk. með blöndu af íslenskum og erlendum grínistum.“

Ricky Gervais fyllti Eldborgarsalinn í Hörpu tvisvar. Hann hefur áhuga …
Ricky Gervais fyllti Eldborgarsalinn í Hörpu tvisvar. Hann hefur áhuga á að koma aftur til Íslands, enda var hann himinlifandi með hvernig til tókst. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður um samstarfsaðila erlendis segir Ísleifur að fyrirtækið sé til í að vinna með hverjum sem er. „Ef maður hefur áhuga á einhverjum listamanni, þá finnur maður út úr því hver er umboðsmaður hans og nær sambandi við hann. Þetta er samt tiltölulega lítill heimur. Það eru nokkrar risastórar umboðsskrifstofur sem eru með bróðurpartinn af öllum helstu listamönnum heims á sínum snærum og við erum einfaldlega í stöðugu sambandi við þetta fólk. Það gerir okkur auðveldara fyrir að við erum búin að vera svo lengi í þessu. Við erum orðin þekkt stærð með gott orðspor sem hjálpar okkur. Við höfum líka alltaf staðið okkur vel og eftir að hafa haldið vel heppnaða tónleika með stórstjörnum eins og Eagles, Justin Timberlake og Justin Bieber þá erum við algjörlega komin á kortið og þurfum ekki lengur að byrja öll samtöl á því að segja hvað við höfum gert áður; það vita allir orðið að okkur er treystandi fyrir hverju sem er.

Áður var það þannig að ég eyddi öllum tíma mínum í að eltast við menn og reyna að fá svör og fá menn til að gefa okkur tækifæri og treysta okkur, og hreinlega fá fólk til að þora að koma til Íslands, en það er löngu liðin tíð. Nú hefur það snúist við. Nú fæ ég endalaust af tölvupóstum þar sem verið er að bjóða manni hitt og þetta. Ef áhugi er fyrir hendi þá snýst þetta um það hvort við séum til í að borga uppsett verð, en auðvitað þarf ótalmargt að ganga upp til að af hlutunum verði. Við erum endalaust að ræða málin við ýmsa aðila, en í 80-90% tilvika verður ekkert af neinu.“

Spurður nánar um fyrirkomulagið á samningum við umboðs- og listamenn segir Ísleifur að bæði sé um að ræða fyrirframgreiðslur og prósentur af innkomu. „Það er alltaf greidd trygging, þannig að mótaðilarnir eru í raun alltaf búnir að fá sitt áður en þeir koma til landsins og taka aldrei neina áhættu. Áhættan af viðburðinum er okkar, hún er okkar starf. Við borgum alltaf upp í topp, alveg sama hvað gerist og hvernig gengur að selja. Flug og frakt er yfirleitt þeirra megin. Ef þeir vilja flytja inn græjur þá gera þeir það á sinn kostnað, við útvegum græjur sem eru til hér á landi. Svo kemur í ljós hvernig gengur og yfirleitt er að auki samið um að skipta ágóða, sem kemur þá til ofan á trygginguna ef við seljum mikið meira en kostnaðaráætlun sagði til um, eða ef kostnaður er mun lægri en gert var ráð fyrir.“

Aldrei misreiknað sig alvarlega

Ísleifur segir aðspurður að það sé hluti af svona rekstri að tapa af og til, en sem betur fer hafi þeir aldrei misreiknað sig alvarlega og tapað háum fjárhæðum. „Ef maður ætlar að vera í bransanum þarf maður að hafa efni á að tapa öðru hverju. Það er munurinn á alvöruviðburðafyrirtækjum og hinum; menn verða að geta tekið á sig tap öðru hvoru og haldið ótrauðir áfram, án þess að það bitni á gæðum tónleika eða öðru.

Maður hefur alltaf reynt að krafsa sig í átt að núllpunktinum með öllum tiltækum ráðum, eins og að koma út miðum á síðustu stundu og lækka kostnað.“

Ísleifur segir að þeir viðburðir sem best hafi gengið séu stóru tónleikarnir. „Eagles-tónleikarnir voru stærstu tónleikar eftir hrun. Mörgum fannst við vera hálfklikkaðir að fara út í þetta. Við vorum að borga hærri umboðslaun en áður höfðu þekkst fyrir Ísland og miðaverðið var hærra en menn höfðu séð áður. En við fórum af stað og 10 þúsund miðar seldust upp á svipstundu.“

Ísleifur sagði að ástæðan fyrir þetta góðu gengi hafi verið að fólk hafi verið orðið þyrst í alvöru tónleika, eftir langt hlé, en stórstjörnurnar komu hingað til lands í röðum fyrir hrun. „Þetta fór allt í gang með þessum tónleikum. Í kjölfarið kom svo Timberlake til landsins, en það voru algjörir tímamótatónleikar fyrir íslenska markaðinn. Bæði að ná svo stórri samtímastjörnu til landsins og að nýta sér stórt hús sem margir vissu hreinlega ekki að væri til, Kórinn í Kópavogi, undir tónleikana! Svo var leikurinn endurtekinn með Justin Bieber, annarri sjóðheitri súperstjörnu, og þar var umfangið enn meira. Þegar þeir áttuðu sig á því að það væri búið að selja tæplega 38 þúsund miða hér á landi og um 12% þjóðarinnar væru að mæta, þá ákváðu þeir að fara alla leið, flytja mikið af græjum sjálfir til landsins og gera þetta með stæl.“

En hvernig veit Sena Live hvað íslenskir áhorfendur vilja sjá? „Maður er með hóp af trúnaðarvinum og kollegum í kringum sig og spyr svo ungt fólk ef við á og eldra fólk þegar það á við. Svo höfum við aðgang að því hvernig gengur að selja inn á viðburðina erlendis. Einnig fylgjumst við með áhorfi á YouTube og hlustun á Spotify.“

Ísleifur segir að Sena Live eyði alltaf ákveðnu hlutfalli af kostnaðaráætlun í tryggingar. „Ef maður er að millifæra risastórar upphæðir á milli landa þá er betra að vera tryggður fyrir óvæntum skakkaföllum. Ef listamaður veikist eða aflýsir af öðrum orsökum, eða ef eldgos hefst eða annað slíkt, þá höfum við tryggingar sem við kaupum af sérhæfðum aðila í London. Þar með getum við tryggt væntan hagnað, kostnað og umboðslaunin.“

Í viðtali við Morgunblaðið árið 2012 sagði Ísleifur spurður um draumaverkefnið, að hann myndi ekki hætta fyrr en bandaríska gruggsveitin Pearl Jam kæmi til landsins, eða í versta falli Red Hot Chili Peppers. Nú er sú síðarnefnda að koma á vegum Senu Live í sumar, en hvað er að frétta af Pearl Jam?

„Nú er ég búinn að ná öðrum og þá er bara hitt eftir,“ segir Ísleifur og hlær. „Ég er ekki búinn að gefast upp. Ég held að allir tónleikahaldarar á landinu hafi reynt við þá síðustu 15-20 ár. Ef þeir fara í tónleikaferð þá mun ég fylgjast með því. En það er samt stórhættulegt að eltast við hljómsveitir sem maður dáist að sjálfur. Þá er hætta á að skynsemin ráði ekki alltaf för,“ segir Ísleifur og brosir.

Sá eini í bransanum í fullu starfi

Rekstur í viðburðafyrirtæki getur verið mjög sveiflukenndur að sögn Ísleifs. „Þó að ég sé búinn að vera í þessu í 20 ár, þá er ég núna fyrst kominn í þá stöðu að geta unnið við þetta eingöngu og gert að lifibrauði. Vinnan við að komast í þessa stöðu er alveg gríðarleg. Ég held að ég sé eini tónleikahaldarinn á landinu sem er ekki í öðrum störfum samhliða.“

Ísleifur segir að þegar vel árar hjá fyrirtækinu, eins og í fyrra, þá sé mikilvægt að passa sig og búa í haginn. „Enginn bjóst við að bæta við aukatónleikum á Justin Bieber. Við seldum fjóra fulla Eldborgarsali á Sissel Kirkebö, Jólagestir Björgvins gengu mjög vel og annað sömuleiðis.“

Velta Sena Live var 800 milljónir króna á síðasta ári, samkvæmt heimildum ViðskiptaMoggans, en Ísleifur er eini starfsmaðurinn á launaskrá félagsins. „Það er auðvitað aðeins blekkjandi að tala um mig sem eina starfsmanninn því ég hef aðgang að fólki hjá Senu, bókhaldi, markaðsmálum og fleiru, og allur sá fjöldi sem kemur að tónleikahaldinu sjálfu er svo ráðinn sem verktakar, en ég er vissulega eini fasti launþeginn.“

Að lokum segir Ísleifur að áskoranir í rekstrinum séu helst þær að meta hvað markaðurinn þoli. Er til dæmis hægt að halda tvenna stórtónleika í Kórnum á sama árinu? „Við erum alltaf að berjast við smæð landsins, óvissu í gengismálum og fleira slíkt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK