Lifði við ótta eftir fall Landsbankans

Landsbankinn í Lúxemborg. Macias, líkt og aðrir málshöfðendur, segir bankann …
Landsbankinn í Lúxemborg. Macias, líkt og aðrir málshöfðendur, segir bankann hafa blekkt sig. mbl.is/Ólafur

Franski tónlistarmaðurinn Enrico Macias sagði dómara frá því hvernig hann hefði í tæpan áratug lifað við ótta við að missa heimili sitt í kjölfar falls Landsbankans í Lúxemborg. Málið allt, sagði þessi 78 ára gamli tónlistarmaður hafa flýtt dauða eiginkonu sinnar.

AFP-fréttastofan fjallar í dag um saka­mál gegn Björgólfi Guðmunds­syni, fyrr­ver­andi aðal­eig­anda Lands­bank­ans, Gunn­ari Thorodd­sen, fyrr­ver­andi yf­ir­manni Lands­bank­ans í Lúx­em­borg, og fimm öðrum ein­stak­ling­um sem tengj­ast meint­um blekk­ing­um vegna veðlána sem bank­inn veitti. Aðalmeðferð í málinu hófst fyr­ir dóm­stóli í Par­ís í Frakklandi í gær og er Macias, sem er þekktur í heimalandi sínu, einn þeirra níu einstaklinga sem eiga aðild að kærunni.

Einn þeirra fyrstu sem kærðu

Macias er einnig einn þeirra fyrstu sem höfðuðu mál gegn bankanum, árið 2009, en málið hef­ur þvælst mikið bæði í Frakklandi og Lúx­em­borg. Sak­sókn­ari í Lúx­em­borg felldi málið niður á sín­um tíma meðan sak­sókn­ari í Frakklandi ákvað að gefa út ákæru.

Í mál­inu er tek­ist á um hvort Lands­bank­inn í Lúx­em­borg hafi blekkt viðskipta­vini sína sem bank­inn veitti eins kon­ar lausa­fjár­lán með veði í fast­eign­um. Var hug­mynd­in að viðskipta­vin­ur­inn fékk hluta af verðmæti veðsins út­greitt en bank­inn fjár­festi fyr­ir af­gang­inn af veðinu þannig að lánþeg­inn þyrfti í raun ekki að borga lánið sjálf­ur til baka.

Vildi 5,5 milljóna lán en fékk 35 milljónir

Áður en Macias leitaði til Landsbankans hafði hann reynt að fá 5,5 milljóna evra lán til að gera upp heimili sitt í Saint-Tropez í Suður-Frakklandi. Honum tókst ekki að fá franskan banka til að samþykkja slíkt lán.

Landsbankinn í Lúxemborg bauðst til að lána honum 35 milljónir evra – níu milljónir þeirra í reiðufé og hinn hlutann í  fjárfestingasjóðum – gegn því að veð yrði tekið í fasteign hans.

Hugmyndin að baki láninu var sú að hagnaðurinn af fjárfestingasjóðunum myndi duga fyrir vöxtum lánsins og viðurkenndi Macias fyrir dómi í dag að hann hefði verið „rosalega ánægður“ með þetta fyrirkomulag.

Þegar bankinn hrundi reyndi hann hins vegar samstundis að innheimta öll lán og greindi viðskiptavinum frá því að heimili þeirra og aðrar eignir yrðu gerðar upptækar til að greiða skuldina.

Hefðu átt að beita almennri skynsemi

Macias, líkt og aðrir málshöfðendur, segir bankann hafa blekkt sig. Tekjur sínar hefðu aldrei dugað fyrir láni þar sem vaxtakostnaðurinn var rúmar tvær milljónir á ári.

„Ég hef eytt tíu árum ævi minnar í ótta við að missa mína einu eign,“ sagði Macias fyrir rétti í dag. Kona hans hafi þegar verið veik þegar ógæfan reið yfir. „Ég missti konu mína vegna þessa banka.“

Einnig báru vitni í dag garðyrkjufræðingar, sem voru með 25.000 evra árstekjur, og kokkur á lágmarkslaunum, sem allir fengu milljón evra lán hver frá Landsbankanum.

Dómarinn Olivier Geron gagnrýndi hins vegar lánþegana og sagði þeim hafa gefist betur að sýna „almenna skynsemi“.

„Að taka lán án þess að það kosti mann nokkuð. Það er eins og að það séu jól daglega,“ sagði Geron.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK