Rekstrarhagnaður Reita 1.792 milljónir

Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita.
Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rekstrarhagnaður Reita fasteignafélags hf. nam 1.792 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi. Á fundi sínum í dag samþykkti stjórn Reita árshlutareikning samstæðunnar fyrir ársfjórðunginn.

Þar kom fram að leigutekjur fjórðungsins námu 2.637 milljónum króna og jukust þær um 17,6% frá fyrra ári.

Matshækkun fjárfestingareigna nam 900 milljónum króna. Hagnaður árshlutans var 1.475 milljónir króna. Hagnaður á hlut var 2,04 krónur. Virði fjárfestingaeigna var 129.022 milljónir króna 31. mars 2017 samanborið við 125.719 milljónir króna í lok árs 2016.

Vaxtaberandi skuldir námu 76.599 milljónum króna.

Stjórnendur vænta þess að rekstrarhagnaður ársins 2017 verði 7.350 til 7.450 milljónir króna miðað við núverandi eignasafn.

„Rekstur Reita á fyrsta ársfjórðungi var áfram stöðugur og í takti við áætlanir félagsins. Afkoma ársfjórðungsins ber vexti félagsins á árinu 2016 skýrt merki en þar til viðbótar bætist Hótel Alda í eignasafnið á fyrsta ársfjórðungi,“ sagði Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita, í tilkynningu.

„Undanfarin misseri hefur verið unnið að undirbúningi nokkurra stærri þróunarverkefna félagsins. Stærsta verkefnið er undirbúningur að umfangsmiklum nýframkvæmdum á Kringlusvæðinu. Í vikunni sem leið auglýstu Reitir í samvinnu við Reykjavíkurborg og Arkitektafélag Íslands eftir þátttakendum fyrir forval lokaðrar hugmyndasamkeppni. Niðurstöður samkeppninnar eiga að liggja fyrir í byrjun október. Að henni lokinni á vinna við deiliskipulagningu svæðisins að geta hafist. Reitir gera ráð fyrir að á næstu 6-10 árum verði búið að byggja nýja 350-500 íbúða byggð á svæðinu auk 70-100 þús. fermetra af nýju atvinnuhúsnæði. Við Kringluna fara daglega um 4.000 farþegar í eða úr strætisvögnum á þremur stoppistöðvum. Reitir gera því ráð fyrir að á svæðinu verði góð aðstaða fyrir Borgarlínuna – verði af áformum um byggingu hennar.

Laugavegur 176 stendur meðfram samgöngu- og þróunarás þar sem áætlað er að hin nýja Borgarlína muni liggja. Nú þegar er hafin hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag reitsins sem nær frá Laugavegi 168 til 176. Þar eiga Reitir gamla sjónvarpshúsið sem ráðgert er að breyta í hótel með fjölbreyttri verslun og veitingastarfsemi á jarðhæð.

Bæði þessi verkefni eru mikilvægur hluti af því að þétta borgina og er það Reitum mikið gleðiefni að leggja sitt af mörkum við að byggja upp samfélag með vel heppnuðum þróunarverkefnum,“ sagði Guðjón einnig í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK