Galin umræða um aðgerðir HB Granda

,,Það að halda því fram að stefna HB Granda sé …
,,Það að halda því fram að stefna HB Granda sé ekki samfélagslega ábyrg er í einu orði galin," sagði Jens.

Það að halda því fram að stefna HB Granda sé ekki samfélagslega ábyrg er í einu orði galin á sama tíma og HB grandi hefur fjárfest fyrir 10 milljarða í atvinnutækjum og kvóta til að styrkja 600 manna byggðarlag á Vopnafirði.

Þetta kom fram í ræðu Jens Garðars Helgasonar, formanns Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi á ársfundi samtakanna í dag.

„Hvernig í ósköpunum?“

Jens sagði að í ljósi frétta af aðgerðum HB Granda á Akranesi þar sem botnfiskvinnsla þess í bænum verður lögð af frá og með 1. september og 86 starfsmönnum sagt upp störfum hafa ýmsir stokkið til og talað um aukið gjald á greinina, byggðafestu kvóta, hugmyndir um uppboðsleiðir og annað þar eftir götunum. Sagði hann að oft á tíðum hafi umræðan ekki verið í neinu samhengi við raunveruleikann.

Jens sagði Akranes líklega þann stað sem mest hefur notið þess, miðað við höfðatölu, hvernig íslenskur sjávarútvegur hefur tekið framförum í tækni, fjárfestingu og arðbærari nýtingu á auðlindum sjávar.  Nefndi hann sem dæmi að á Akranesi hefur byggst upp þekkingarfyrirtækið Skaginn, með 170 starfsmenn, „sem einmitt byggir á því að íslenskur sjávarútvegur er að fjárfesta til framtíðar og í framtíðinni.“

Jens Garðar Helgason, formaður SFS.
Jens Garðar Helgason, formaður SFS. mbl.is/Árni Sæberg

Sagði Jens að sumir hafi gengið svo langt að úthrópa HB Granda fyrir að standa ekki við samfélagslegar skuldbindingar og stuðla ekki að byggðafestu. 

„Hvernig í ósköpunum er hægt að komast að þessari niðurstöðu þegar að fyrirtækið er að fækka úr 270 starfsmönnum á Akranesi í 185 og fyrirheit eru um að reyna að finna sem flestum vinnu annarsstaðar hjá fyrirtækinu – annað hvort á Akranesi eða í Reykjavík?” spurði Jens. „Akranes er 6.800 manna samfélag í hálftíma akstri frá Reykjavík.  Á sama tíma hefur HB Grandi fjárfest fyrir 10 milljarða í atvinnutækjum og kvóta til að styrkja 600 manna byggðarlag austur á fjörðum. 10 milljarðar sem hafa tryggt starfsöryggi og byggðafestu Vopnafjarðar til framtíðar.  Samfélag sem er tíu sinnum minna en Akranes í 700 km fjarlægð frá Reykjavík.  Það að halda því fram að stefna HB Granda sé ekki samfélagslega ábyrg er í einu orði galin.”

Ef einhver er að byggja upp þá er það sjávarútvegur

Sagði Jens hafa ennþá fleiri dæmi um hvernig íslensk sjávarútvegsfyrirtæki eru að treysta byggðir og atvinnusvæði allt í kringum landið og fjárfesta til framtíðar. 

„Má þar nefna uppbyggingu Jakobs Valgeirs í Bolungarvík, Hraðfrystihúsið Gunnvör stefnir á að byggja nýja bolfiskvinnslu á Ísafirði, fjárfestingar í nýjum vinnslutækjum hjá Odda á Patreksfirði, uppbygging Ísfélagsins á Þórshöfn, ný bolfiskvinnsla Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, aukin vinnsla og fjárfesting Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði, nýtt hátækni uppsjávarfrystihús Eskju á Eskifirði, Samherji var að tilkynna nú á dögunum um milljaraða  uppbyggingu á nýrri og glæsilegri bolfiskvinnslu á Dalvík og á morgun bætist í flotann Sólberg ÓF 1 sem er eitt glæsilegasta og tæknilegasta frystiskip í Norður Atlantshafi. 6 milljarða króna fjárfesting sem skilar 70 hátekjustörfum í samfélagið í Fjallabyggð,” sagði formaðurinn.

„Ofangreind dæmi lýsa svo ekki verður um villst að ef einhver atvinnugrein á Íslandi er að byggja upp, horfa til framtíðar, tryggja byggðafestu og góð laun fyrir starfsmenn sína þá er það íslenskur sjávarútvegur. “

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK