Fjölgun ferðamanna meiri en vöxtur kortaveltu

Erlendir ferðamenn á Þingvöllum.
Erlendir ferðamenn á Þingvöllum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kortavelta erlendra ferðamanna í íslenskum krónum jókst um tæp 28% í apríl 2017 miðað við sama mánuð árið áður. Á sama tíma var fjölgun ferðamanna um 62% og var þetta fimmti mánuðurinn í röð sem vöxtur ferðamanna var meiri en vöxtur í kortaveltu þeirra, samkvæmt samantekt fjármálaráðuneytisins.

Kortavelta erlendra ferðamanna hefur vaxið nokkuð hraðar en fjölgun þeirra. Neysla á hvern erlendan ferðamann fór vaxandi allt þar til í desember 2016 þegar þróunin snerist við og hún tók að minnka. 

„Fyrstu fjóra mánuði ársins 2017 fjölgaði erlendum ferðamönnum sem heimsækja Ísland um 56% miðað við sama tímabil í fyrra og virðist því, enn sem komið er, gengisstyrking krónunnar undanfarið ár hafa haft óveruleg áhrif á fjölgun erlendra ferðamanna sem hingað koma,“ segir í samantekt fjármálaráðuneytisins. Því má leiða að því líkum að þó gengissveiflur hafi ekki veruleg áhrif á fjölda ferðamanna sem sækja landið heim þá hafi þær áhrif á neyslu þeirra í krónum.

„Ferðafólk ákveði, meðvitað eða ómeðvitað, hve miklu það ætli að eyða í sinni heimamynt í heimsókninni til Íslands og sú neysla haldist óbreytt, en sveiflist í íslenskum krónum í samræmi við gengissveiflur krónunnar.“

En ef vöxtur tólf mánaðar meðalkortaveltu hvers erlends ferðamanns, miðað við sama tímabil árið áður er skoðuð er ekki að sjá að gögnin styðji kenninguna um að ferðamenn haldi neyslu sinni í heimamynt nokkuð stöðugri.

Bent er á að eftir að styrkingarfasi krónunnar hófst á síðari hluta ársins 2016 dró lítillega úr kortaveltu hvers ferðamanns í krónum, eða um tæp 3% frá maí 2016 til apríl 2017 miðað við sama tímabil ári áður. Samdrátturinn er þó lítill og þegar tekið er tillit til gengisbreytinga mælist vöxtur í kortaveltu ríflega 11%.

Í aprílmánuði nam samdráttur í kortaveltu á hvern erlendan ferðamann um 21%, miðað við sama mánuð árið áður. Það er nokkuð meiri samdráttur en mánuðina fjóra á undan en í ágætu samræmi við gengisstyrkingu krónunnar undanfarna 12 mánuði, sem nam rúmum 17%. Það sem meira er þá nam samdrátturinn 7,3% þegar leiðrétt er með gengisvísitölu. Svo mikill samdráttur í erlendri mynt hefur ekki mælst síðan í desember 2013.

Umfjöllun ráðuneytisins í heild má sjá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK