Verð á dagvöru lækkaði um 3,2%

„Þó mælingin hafi verið gerð áður en Costco opnaði hafa …
„Þó mælingin hafi verið gerð áður en Costco opnaði hafa verðlagsáhrif þegar verið farin að koma í ljós þegar ljóst var að samkeppnin ykist. Verðmælingar Hagstofunnar ná ekki til verðlags í Costco en endurspegla verðlagsáhrifin eins og þau koma fram í þeim verslunum sem fyrir voru á markaði,“ segir í samantekt RSV. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verð á dagvöru var 3,2% lægra í maí síðastliðinn en í sama mánuði í fyrra og jókst velta þeirra dagvöruverslana sem voru á markaði um 1,2% að nafnvirði eða 4,6% á raunvirði á sama tímabili samkvæmt úttekt Rannsóknaseturs Verslunarinnar. Vert er að geta þess að veltutölurnar ná ekki til veltu Costco þar sem  hún var aðeins starfrækt í rúma viku í síðasta mánuði.

Rannsóknarsetur Verslunarinnar gerir ráð fyrir að fyrrnefnd verðlækkun stafi annars vegar af styrkingu krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum og hins vegar af aukinni samkeppni með innkomu Costco. Verðlag dagvöru hefur lækkað hvern mánuð frá ágúst 2016, þó minnst í maí síðastliðnum.

Verðlagsmæling Hagstofunnar, sem stuðst er við, var síðast gerð um miðjan maímánuð, eins og venja er.

„Þó mælingin hafi verið gerð áður en Costco opnaði hafa verðlagsáhrif þegar verið farin að koma í ljós þegar ljóst var að samkeppnin ykist. Verðmælingar Hagstofunnar ná ekki til verðlags í Costco en endurspegla verðlagsáhrifin eins og þau koma fram í þeim verslunum sem fyrir voru á markaði,“ segir í samantekt RSV.

Verð nær allra vöruflokka sem Smásöluvísitalan nær til lækkaði í árssamanburði í maí en einungis skófatnaður hækkaði í verði, um 3,5% frá maí í fyrra.

Raftækjaverslun jókst í maí síðastliðnum en velta svokallaðra hvítra raftækja (þvottavélar, ísskápar og o.s.fr.) var 13,7% meiri í maí síðastliðnum samanborið við maí 2016 á breytilegu verðlagi. Á sama mælikvarða jókst velta með tölvur og jaðarbúnað um 18,7%, velta brúnvara (sjónvörp o.fl.) um 3,8% og velta farsíma um 2,8% samanborið við sama mánuð í fyrra. Líkt og í dagvöruverslun miðar mælingin við þær verslanir sem fyrir voru og tekur ekki til veltu Costco.

Velta í byggingavöruverslun jókst um 10,6% í maí síðastliðnum frá sama mánuði í fyrra á breytilegu verðlagi, þá jókst velta sérverslana með gólfefni um 17,9% á sama tímabili. Verð byggingavara hefur lækkað um 1,2% frá sama mánuði í fyrra en verð gólfefna hefur lækkað um 1%

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK