Gamma kaupir byggingarétt af Regin

Yfirlitsmynd af Smárabyggð sem rís við hlð Smáralindar
Yfirlitsmynd af Smárabyggð sem rís við hlð Smáralindar

GAMMA hefur keypt 50% hlut í félaginu 201 Miðbær ehf. af Regin. Með sölunni hefur Reginn selt alla hluti sína í félaginu en mótaðili sjóða GAMMA  með eignarhald á 50% hlut, verði af sölunni, verður áfram Smárabyggð ehf. Samkomulag er með ýmsum fyrirvörum m.a. um samþykki stjórnar Regins.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Félagið 201 Miðbær ehf. er eigandi byggingarréttar á lóðum 03 og 04 sunnan Smáralindar í hverfinu sem hefur gengið undir nafninu Smárabyggð. Byggingarmagn á lóðunum tveimur er alls 30.622 „brúttó“ íbúðarfermetrar. Söluverð á hlut Regins í félaginu er 1,2 milljarðar króna.

Á síðustu árum hefur Reginn í samstarfi við eigendur Smárabyggðar ehf. og Kópavogsbæ unnið að því að endurskipuleggja nánasta umhverfi sunnan Smáralindar.

„Tilgangur þess hefur verið að styrkja Smáralind og svæðið í heild sem verslunar og þjónustusvæði sem og koma þar fyrir vönduðu og glæsilegu íbúðarsvæði. Það er mat félagsins að veruleg jákvæð áhrif verða til frambúðar með tilkomu mikillar íbúðabyggðar í nágrenni verslunarmiðstöðvarinnar,“ segir í tilkynningu.

Með sölunni nú á hluta byggingaréttar á svæðinu er verið að innleysa virði sem liggur í byggingarrétti á lóðunum við Smáralind.  Það er mat félagsins að nú sé réttur tími til að selja verkefnið af tveimur ástæðum. Mikil eftirspurn er eftir skipulögðum vel staðsettum íbúðabyggðum og nú eru sterkir fagaðilar að leita að hentugum byggingarverkefnum sem hægt er að hefja framkvæmdir við fljótt að sögn Regins í tilkynningu.  

„Forsenda þess að selja verkefnið frá Reginn nú er að uppbygging verkefnisins styrki Smáralind og svæðið í heild en Smáralind er verðmætasta eign Regins. Hluti af samkomulagi milli aðila er að tryggja að útfærslur, framkvæmdir og uppbygging verkefnisins verði í sem mestri sátt við starfsemi og athafnarlíf á svæðinu. Einnig er samkomulagið hagfellt Reginn að því leyti að við það flyst álag og áhætta frá félaginu sem óneitanlega fylgir uppbyggingu íbúðarverkefnis sem þessa, en bygging íbúðarhúsnæðis er utan núverandi kjarnastarfsemi Regins,“ segir í tilkynningu.

Með viðskiptunum nú hefur Reginn þó ekki selt frá sér allan byggingarrétt sunnan Smáralindar. Reginn á eftir þessi viðskipti rúmlega 14.000 m2 af byggingarrétti á Smárabyggðar svæðinu, sem er að hluta íbúðarhúsnæði en að mestu atvinnuhúsnæði. Er sá byggingarréttur á lóðum 05, 06 og 07, deiliskipulag liggur fyrir á öllum lóðunum.

Félagið hefur ekki sett sér fastmótaða áætlun hvenær uppbygging á lóðum 05 og 06 fer af stað, en það eru lóðir sem næst eru Smáralind og munu aðgerðir á þeim lóðum hafa mestu tímabundnu áhrifin á flæði og umferðarmál næst Smáralind. Hinsvegar hefur verið hafinn undirbúningur að uppbyggingu bílastæðapalla með allt að 800 bílastæðum norðan við Smáralind sem bæta mun aðgengi að verslanamiðstöðinni enn frekar.

Mynd/Reginn
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK