Greiða verslunum fyrir að hafna reiðufé

Sótt er að reiðufé úr mörgum áttum.
Sótt er að reiðufé úr mörgum áttum. AFP

Kortafyrirtækið VISA í Bretlandi stefnir að því að greiða fyrirtækjum fyrir að neita að taka við reiðufé. VISA mun brátt reyna að ná samningum við breskar verslanir sem fælu í sér eingreiðslu að virði þúsunda punda og ókeypis snertilausan kortabúnað. 

Greint er frá fyrirætlunum kortafyrirtækisins á fréttavef The Telegraph

Í skiptum þyrftu verslanirnar að tryggja að hver einasta vara sé keypt með debetkorti, kreditkorti eða öðrum rafrænum greiðslumiðli eins og Apple Pay. Sambærilegt verkefni hefst á vegum VISA í Bandaríkjunum í næstu viku þar sem 50 verslanir fá 10 þúsund dali fyrir vikið. 

Eins og stendur letja margar verslanir viðskiptavini þess að greiða með korti og vilja fremur reiðufé þegar um smærri kaup er að ræða, vegna færslugjalda sem kortafyrirtækin leggja á. Árlega greiða verslanir í Bretlandi um 800 milljónir punda í færslugjöld til kortafyrirtækja fyrir 10 milljarða færslna. 

Neytendasamtök í landinu hafa sett sig upp á móti fyrirætlunum VISA þar sem þær komi sér illa fyrir eldri borgara og aðra sem reiða sig enn á reiðufé og ávísanir. Seðlabanki Bretlands metur að um 2,7 milljónir neytenda í Bretlandi noti mestmegnis seðla og mynt.

„VISA virðist vera að múta fyrirtækjum til að láta af notkun reiðufjár hraðar en ella, til þess að græða meira. Það hringir viðvörunarbjöllum, við þurfum að hafa í huga að margir sem nota reiðufé í miklum mæli eru berskjaldaðir í samfélaginu,“ segir James Daly hjá Fairer Finance.    

Nýlega var haft eftir forstjóra VISA að fyrirtækið ætli að hagnast á því að heyja stríð gegn reiðufé. „Við ætlum að ryðja reiðufé af markaði og fá fleiri viðskiptavini til þess að nota rafræna greiðslumiðla,“ sagði Al Kelly forstjóri við hluthafa í júní. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK