Norrænt samstarf fyrir vaxtafyrirtæki

Á næstu vikum verða tíu norræn fyrirtæki valin til að …
Á næstu vikum verða tíu norræn fyrirtæki valin til að taka þátt í fyrsta hópi verkefnisins sem er styrkt af Nordic Innovation. Fyrirtækin sem koma til greina þurfa að vera í vexti og hafa fengið að lágmarki fjárfestingu upp á 2 milljónir Evra (250 milljónir króna) eða geta sýnt fram á veltu að sömu upphæð. Aðsend mynd

Í þessum mánuði fer af stað verkefnið Nordic Scalers sem er ætlað norrænum fyrirtækjum í örum vexti að sækja á nýja markaði. Verkefnið stuðlar jafnframt að tengslum á meðal leiðandi frumkvöðla á Norðurlöndum. Fyrirtækin sem eiga þess kost að taka þátt eru fyrirtæki sem hafa burði til að vaxa hratt og vilja sækja á alþjóða markaði. „Það er kominn tími til að Norðurlöndin taki höndum saman og vinni sameiginlega að þessu markmiði,“ er haft eftir Bjarne Schön verkefnastjóra Nordic Scalers í fréttatilkynningu.

„Það eru til ógrynni af lausnum fyrir frumkvöðla sem eru í startholunum, eins og verkefnastyrkir og viðskiptahraðlar. En fyrir sprotafyrirtæki sem nú þegar eru byrjuð að skapa tekjur og vaxa, vaxtafyrirtæki eða scale-ups eins og þau eru gjarnan kölluð, þá eru fáar lausnir í boði sem styðja og tryggja áframhaldandi vöxt. Verkefninu Nordic Scalers er ætlað að þjónusta þessi fyrirtæki,“ segir í tilkynningunni.

Þurfa að hafa fengið að minnsta kosti 250 milljón króna fjárfestingu

Á næstu vikum verða tíu norræn fyrirtæki valin til að taka þátt í fyrsta hópi verkefnisins sem er styrkt af Nordic Innovation. Fyrirtækin sem koma til greina þurfa að vera í vexti og hafa fengið að lágmarki fjárfestingu upp á 2 milljónir Evra (250 milljónir króna) eða geta sýnt fram á veltu að sömu upphæð. Verkefnið skiptist í fjórar verkefnalotur yfir tveggja ára tímabil, hver verkefnalota er sex mánuðir. Fyrirtækjum býðst einstakt tækifæri til að útfæra áætlanir sínar í samstarfi við nokkra af helstu frumkvöðlum Norðurlandanna. Fyrsta verkefnalotan mun einblína á fyrirtæki sem hafa áhuga á að koma sér á markað í Bandaríkjunum.

„Á síðustu árum hafa Norðurlöndin fóstrað þó nokkur fyrirtæki sem hafa náð að vaxa á ógnarhraða. Við vitum að þekkingin er til staðar á Norðurlöndunum fyrir næstu kynslóð vaxtafyrirtækja, en nú er komin tími til að Norðurlöndin vinni saman,“ er haft eftir Bjarne Schön verkefnastjóra Nordic Scalers.

Icelandic Startups samstarfsaðili

Icelandic Startups er samstarfsaðili Nordic Scalers á Íslandi og hefur umsjón með íslenska hluta þess.

„Það er mikill kraftur og samstaða í íslensku frumkvöðlaumhverfi sem hefur tekið út mikinn þroska á síðustu árum. Við erum að sjá aðra kynslóð frumkvöðla verða til, aukið fjármagn í boði fyrir sprota og stöðugt betra umhverfi fyrir hvers konar nýsköpun og frumkvöðlastarf, sérstaklega á fyrstu stigum. Til þess að geta stutt frekari vöxt og sókn sprotafyrirtækja á alþjóðamarkaði þá þurfum við hins vegar að gera enn betur. Með þátttöku í verkefninu gefst okkur kostur á að veita íslenskum vaxtarfyrirtækjum markvissan aðgang að leiðandi sérfræðingum erlendis, tryggja þeim mikilvægar alþjóðlegar tengingar og sýnileika utan landsteinanna,“ er haft eftir Salóme Guðmundsdóttir, framkvæmdarstjóra Icelandic Startups.

Til þess að tryggja að réttu frumkvöðlarnir verði valdir í Nordic Scalers þá hafa verið valdir til samstarfs leiðandi aðilar í norræna sprotasamfélaginu, frá Stokkhólmi, Osló, Helsinki og Reykjavík. Fyrirtækið Rainmaking leiðir verkefnið, en höfuðstöðvar þeirra eru í Kaupmannahöfn. Fjármögnun verkefnisins kemur fyrst og fremst frá Nordic Innovation sem er rekið af norrænu ráðherranefndinni. Nordic Scalers er ætlað að þróa bestu aðferðir við skölun sprotafyrirtækja. Verkefninu er ætlað að einblína á vörur og þjónustu sem byggja á nýrri tækni.

„Sú hraða þróun sem hefur átt sér stað í norrænu sprotaumhverfi hefur ekki náð til vaxtafyrirtækja. Það hefur verið skortur á þjónustu á Norðurlöndunum fyrir vaxta- og þroskaðri fyrirtæki sem vilja sækja á alþjóðamarkað, á sama tíma hefur fjöldi viðskiptahraðla aukist mikið, en flestir beina þeir sjónum að yngri fyrirtækjum. Enn fremur þá hefur áhersla á að þjónusta sprota verið nánast einskorðuð við nærumhverfi sprotanna. Hingað til hafa ekki verið nýtt til fulls þau tækifæri sem gætu leynst í því að sækja á markað undir norrænum formerkjum. Þetta sameiginlega átak gæti leitt til mikils virðisauka fyrir norrænt sprotaumhverfi,“ er haft eftir nýsköpunarráðgjafanym Anna-Maija Sunnanmark hjá Nordic Innovation.

„Fyrir utan þau tengsl og miðlun þekkingar sem á meðal frumkvöðlanna sjálfra mun Nordic Scalers tengja þau fyrirtæki sem verða valin við einstaklinga, mentora, sem hafa náð eftirtektarverðum árangri í alþjóðlegri markaðssókn. Í ágúst og september á þessu ári mun verkefnið verða kynnt í höfuðborgunum Norðurlandanna  á viðburði sem kallast “Meet the Scalers”. Þar munu vaxtafyrirtæki fá tækifæri til þess að kynnast verkefninu betur, hitta mentora, koma sér á framfæri og fá tækifæri til að sannfæra stjórnendur verkefnisins um að þau séu reiðubúin fyrir útrás á Bandaríkjamarkað,“ segir í tilkynningu.

Áhugasömum frumkvöðlum er bent á sækja um hér.

http://nordicscalers.io/connect-with-us/

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK