Hugbúnaðarfyrirtæki stefnir á útrás

Helgi Helgason, Pétur Oddbergur Heimisson, Karl Már Lárusson og Sigríður …
Helgi Helgason, Pétur Oddbergur Heimisson, Karl Már Lárusson og Sigríður Ólöf Valdimarsdóttir starfsmenn Anitar. mbl.is/Eggert

Stofnandi hugbúnaðarfyrirtækisins Anitar, Karl Már Lárusson, furðaði sig á seinlegum vinnubrögðum hesteigenda í leit að rétta hestinum í hrossastóði fyrir tveimur árum. Það varð kveikjan að því að nú tveimur árum seinna er að koma á markað fyrsta útgáfan af nýjum örmerkjalesara frá Anitar sem kallast The Bullet. Hann er tengdur beint við síma og snjallsímaforrit og veitir upplýsingar um dýrið fljótt og auðveldlega. Fyrsta gerðin af lesaranum var kynnt á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Hollandi í byrjun ágúst.

Þess má geta að Karl tók sjálfur hest í misgripum úti í haga fyrir tveimur árum og er því meðvitaður um mikilvægi þess að hafa þetta ferli einfalt og skilvirkt. Allir hestar eiga að vera með örmerki í hálsinum með sérstöku númeri sem er skráð í gagnagrunn íslenska hestsins Worldfeng og notaður er örmerkjalesari til að lesa merkið og fletta upp upplýsingum um hestinn. 

Fyrstu lesararnir tilbúnir í mars á næsta ári

Fyrstu lesararnir frá Anitar verða tilbúnir í mars á næsta ári og hægt er að kaupa þá í forsölu á vefsíðunni Kickstarter. Þar fæst hann nú á 175 dollara eða tæpar 20 þúsund krónur. Þegar hann fer á markað mun hann kosta um 35 þúsund krónur og verður hann með sambærilega lestrardrægni og 80-100 þúsund króna lesarar í dag. Verðið á hefðbundnum örmerkjalesurum er misjafnt eins og þeir eru margir og kosta á bilinu 30 til rúmlega 200 þúsund krónur.

Lesarinn er tengdur við snjallsíma.
Lesarinn er tengdur við snjallsíma. Ljósmynd/Monika Kanokova

„Við höfum fengið mjög góðar viðtökur og sérstaklega á Heimsmeistaramótinu. Lesarinn mun einfalda alla vinnu dýralækna, hrosseigenda og allra sem vinna með dýr,“ segir Sigríður Ólöf Valdimarsdóttir einn eigandi Anitar og verkefnastjóri. Dýraeigendur í útlöndum hafa einnig sýnt lesaranum mikinn áhuga.

Lesarinn var í fyrstu hannaður út frá hrossum því bæði Sigríður og Karl þekkja best til þeirra dýra enda hesteigendur með meiru. Lesarinn mun einnig nýtast við að skanna og vinna með upplýsingar fjölda dýra, svo sem hesta, hunda, svína og kinda enda hafa skráningar og allt utanumhald dýra aukist síðustu ár. 

Snjallsími, snúra og lesarinn frá Anitar.
Snjallsími, snúra og lesarinn frá Anitar. Ljósmynd/Monika Kanokova

Íslensk framleiðsla á erlendan markað 

Anitar lesarinn er íslensk hönnun og hugvit. „Við reynum að framleiða allt á Íslandi. Við erum í samstarfi við fyrirtæki í Þýskalandi sem framleiðir fyrir okkur en við setjum allt saman á Íslandi,“ segir Sigríður. Hún tekur fram að fyrirtækið leggi mikið upp úr því að framleiðsla sé sem mest hér á landi en stefnt er að því að koma lesaranum á erlendan markað.  

Frá því að hugmyndin kviknaði og varan kemur ár markað hafa liðið tvö ár. Sigríður og Karl hafa ekki setið auðum höndum á þeim tíma. Verkefnið tók þátt í Gullegginu árið 2015. „Það var frábært tækifæri og við lærðum rosalega mikið af því,“ segir Sigríður. Eftir það hlaut verkefnið styrk úr Rannís til frekari uppbyggingar. Í dag eru sex starfsmenn í fullri vinnu hjá fyrirtækinu og þar af tveir í tímabundnu verkefni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK