Ísland tilvalið sem gerðardómsmiðstöð

Ísland er í góðri aðstöðu til þess að byggja upp …
Ísland er í góðri aðstöðu til þess að byggja upp sérhæfða gerðardómsmiðstöð. mbl.is/Árni Sæberg

Fjölmörg tækifæri eru fólgin í því að byggja hér á landi upp umhverfi þar sem stutt er við og stuðlað að gerðarmeðferð fyrir alþjóðleg fyrirtæki líkt og þekkist víða erlendis. Þetta segir 

Rannsóknir Queen Mary háskólans í London hafa sýnt fram á að gerðardómur er vinsælasti valkosturinn þegar kemur að úrlausn viðskiptatengdra ágreiningsmála sem ná yfir landamæri. „Ástæðurnar fyrir því eru fjölmargar,“ segir Garðar Víðir Gunnarsson, lögmaður sem hefur sérhæft sig í gerðardómsrétti og er eigandi á LEX lögmannsstofu. „Í alþjóðlegu samhengi er gerðarmeðferð mjög skilvirkt ferli við úrlausn ágreiningsmála, málsaðilar hafa til dæmis val um hvaða málsmeðferðarreglur gilda og á hvaða tungumáli málsmeðferð fer fram. Síðast en ekki síst geta málsaðilar valið í hvaða ríki gerðardómurinn skuli eiga sæti sitt og það eru til dæmi um það að ríki aðlagi lagaumhverfi sitt með það fyrir augum að skapa hagfellt umhverfi fyrir rekstur alþjóðlegra gerðarmála. Þar sem vel hefur tekist til má segja að slíkt hafi leitt til þess að þar hafi orðið til nokkurs konar miðstöðvar á sviði gerðardómsréttar.“

Hlutlaus staðsetning

Ýmis atriði koma til skoðunar við val á sæti gerðardóms. Valið fer jafnan fram við samningsgerð, um leið og viðskiptaaðilar sammælast um að leysa möguleg ágreiningsmál fyrir gerðardómi. Lagaumhverfið skiptir miklu máli en staðsetning, stjórnmál og fleira kemur jafnframt til skoðunar við valið. „Við erum hlutlaust ríki í miðju Atlantshafi á milli tveggja risavaxinna markaðssvæða, það er því ekki fráleitt að halda því fram að einhverjum þætti það álitlegur kostur að hafa sæti gerðarmeðferðar hér á landi. Ísland er aðili að New York-sáttmálanum sem mælir fyrir um viðurkenningu og fullnustu gerðardómsúrlausna en til að vera samkeppnishæf í þessu sambandi þá þyrfti að fara fram heildarendurskoðun á lögum um samningsbundna gerðardóma í takt við þá þróun sem hefur verið á þessu sviði erlendis undanfarin ár,“ segir Garðar.

Þarf að uppfæra lögin

Garðar segir það liggja í augum uppi að hér væri hægt að nýta sérfræðiþekkingu Íslendinga á norðurslóðum og í orkumálum. „Ísland er í fararbroddi þegar kemur að málefnum norðurslóða og í orkumálum. Það væri tilvalið að byggja hér upp þekkingu og mögulega stofnun sem sérhæfði sig í úrlausn ágreiningsmála á þessum sviðum. Það að stuðla að hagfelldu umhverfi fyrir gerðarmeðferð er til þess fallið að auka innflæði þekkingar og laða að alþjóðleg fyrirtæki.“

Kostur að vera ekki í ESB

Tékkneski lögmaðurinn Alexander J. Belohlavek er á sama máli og Garðar og segir Ísland fullt af tækifærum hvað þetta varðar. „Sem tékkneskur ríkisborgari sé ég í raun margt líkt með Íslandi í dag og Mið-Evrópu fyrir ríflega aldarfjórðungi. Alþjóðleg viðskipti munu aukast og samhliða því væri kjörið að byggja upp umhverfi sem styður við alþjóðlegan gerðardómsrétt. Lagaumhverfið er aðgengilegt og tiltölulega einfalt og staðsetningin er tilvalin fyrir mörg fyrirtæki. Þar að auki er Ísland ekki í ESB. Það eru margir aðilar að viðskiptasamningum sem eiga eftir að líta út fyrir ESB í auknum mæli á næstu árum í leit að ríki sem getur verið hentugt sæti gerðardóms af mörgum lagalegum ástæðum,“ segir Alexander.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK