Lyf og heilsa kaupir glerverksmiðju

Lyf og heilsa
Lyf og heilsa mbl.is/Golli

Lyfjafyrirtækið Lyf og heilsa hefur undirritað samning um kaup á 90% hlut í Glerverksmiðjunni Samverki á Hellu. Seljendur eru meðal annarra Ragnar Pálsson, framkvæmdastjóri og aðaleigandi félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Minni hluthöfum hefur verið boðið að selja hluti sína á sama verði. 

Í tilkynningunni segir að Samverk sé stærsti framleiðandi glers á Íslandi og jafnframt elsta starfandi glerfyrirtæki landsins, en það var stofnað árið 1969. Verksmiðja fyrirtækisins er staðsett á Hellu en jafnframt er söluskrifstofa og sýningarsalur í Kópavogi.

Aðspurður segir Arnar Guðmundsson, stjórnarformaður Lyf og Heilsu, „Við sáum tækifæri í þessu góða fyrirtæki á Hellu. Þó að Lyf og Heilsa sé aðallega í rekstri lyfjaverslana þá er ekki einsdæmi að við kaupum félög sem starfa á gjörólíkum markað, við eigum nokkur dótturfélög og eigum til dæmis Hljóðfærahúsið. Við erum svona aðeins að þreifa okkur áfram. Þetta er gjörólíkur rekstur en allt er þetta nú rekstur þegar upp er staðið,“ segir Arnar. 

„Það var kominn tími á breytingar og ég er mjög ánægður með þennan samning“, er haft eftir Ragnari Pálssyni um söluna. „Sérstaklega er ég ánægður með það að þessi rekstur, sem skiptir miklu máli fyrir lífið hér á Hellu, verður áfram hér á Hellu.“

Verksmiðja Samverk á Hellu.
Verksmiðja Samverk á Hellu. Ljósmynd/Aðsend

Þá er einnig haft eftir Arnari Guðmundssyni, stjórnarformanni Lyfja og heilsu, að mikil ánægja sé með kaupin. „Sérsvið okkar hefur vissulega legið í heilsu- og heilbrigðisgeiranum, en við erum líka fjárfestingafyrirtæki og fjárfestum í fyrirtækjum til langs tíma. Þarna var rótgróið fyrirtæki til sölu og við sjáum mikil tækifæri á glermarkaðnum. Tækifærin liggja ekki síst í því að Samverk er fyrirtæki sem býður fjölmargar flottar glerlausnir," segir Arnar.

Kaupverðið er trúnaðarmál en Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK