Hægist á hækkun fasteignaverðs

Ró er að færast yfir fasteignamarkaðinn að sögn hagdeildar Landsbankans.
Ró er að færast yfir fasteignamarkaðinn að sögn hagdeildar Landsbankans. mbl.is/Ómar

Verð á fasteignum á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,17% í október, en það er minnsta hækkun milli mánaða frá því í júní 2015. Verð á sérbýlum hækkaði um 0,3% og verð á fjölbýli um 0,1%. Í Hagsjá Landsbankans kemur fram að hækkanir frá fyrra ári séu á hraðri leið niður, en hækkunin sé þó enn mjög mikil.

Samkvæmt tölum Þjóðskrár hefur verð á fjölbýli hækkað um 17% á síðustu 12 mánuðum og verð á sérbýli um 19%. Heildarhækkunin nemur 17,6%, sem er eilítið meira en í síðasta mánuði. Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 4,5% á síðustu sex mánuðum, en hækkaði um 12,5% næstu sex mánuði þar á undan.

Segir hagdeild bankans að meiri ró virðist nú ríkja á fasteignamarkaðinum en síðasta vetur og vor.  Verðbólga hefur verið lítil og stöðug síðustu misseri og því hefur raunverð fasteigna hækkað mun meira en ella. Að undanskildum húsnæðiskostnaði hefur ríkt verðhjöðnun í hagkerfinu frá því um mitt ár 2016. Vísitala neysluverðs án húsnæðis í nýliðnum október var þannig 2,3% lægri en í október 2016. Raunverð fasteigna hefur því hækkað um rúm 20% á einu ári, frá október 2016 til október 2017.

Þá er bent á að viðskiptum með fasteignir hefur fækkað að undanförnu. Viðskiptum með fjölbýli hefur fækkað allt frá því í nóvember á síðasta ári, með smá stökkum upp á við inn á milli. Tölur í október núna eru þó mun lægri en í október í fyrra. Nemur samdrátturinn með fjölbýli og sérbýli rúmum 9% á þessu ári og er fjöldi samninga svipaður nú og á seinni hluta ársins 2015. Þá hefur sölutími fasteigna einnig lengst. Hvort tveggja ætti að geta stuðlað að meiri ró á markaðnum, að því er hagdeildin segir.

Að lokum segir að sé litið til breytinga á markaðinum síðustu sex mánuði og svo sex mánuðina þar á undan þá líti út fyrir að tímabil hóflegra verðhækkana sé runnið upp.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK