27% fækkun gjaldþrota

Á höfuðborgarsvæðinu fækkaði gjaldþrotabeiðnum um 33%.
Á höfuðborgarsvæðinu fækkaði gjaldþrotabeiðnum um 33%. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýskráningar einkahlutafélaga á fjórða ársfjórðungi 2017 voru 588 og fækkaði um 2% frá sama tíma í fyrra. Gjaldþrotum á fjórða ársfjórðungi fjölgaði um 14% frá 2016 en 272 fyrirtæki voru tekin til gjaldþrotaskipta á tímabilinu. Þetta kemur fram í frétt frá Hagstofu Íslands.

Árið 2017 fækkaði nýskráningum einkahlutafélaga um 3% frá fyrra ári, en alls voru 2.577 ný einkahlutafélög skráð á árinu. Nýskráningum fækkaði m.a. milli ára í leigustarfsemi og ýmissi sérhæfðri þjónustu um 23% (úr 272 í 209), og í landbúnaði, skógrækt og fiskveiðum um 39% (úr 92 í 56). Nýskráningum fjölgaði mest í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, úr 346 í 417, eða um 21% frá fyrra ári. 

Ef skoðuð er skipting á nýskráningum einkahlutafélaga og hlutafélaga milli landshluta árið 2017 sést að fækkunin milli ára var mest á höfuðborgarsvæðinu þar sem nýskráningar fóru úr 2.019 í 1.926 (5%), en tekið saman fyrir aðra landshluta var fjöldi nýskráninga nánast óbreyttur milli ára, fór úr 652 í 654.

Gjaldþrotabeiðnum fyrirtækja árið 2017 fækkaði um 27% frá fyrra ári. Alls voru 747 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta á árinu, borið saman við 1.030 árið 2016. Árið 2017 fækkaði gjaldþrotum hvað mest frá fyrra ári í fjármála- og vátryggingastarfsemi, úr 94 í 48 (49%), og í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum, úr 203 í 137 (33%). Gjaldþrotum fækkaði í nánast öllum helstu atvinnugreinabálkum frá fyrra ári, nema í flutningum og geymslu þar sem þeim fjölgaði úr 22 í 28 (27%).

Ef skipting gjaldþrota árið 2017 er skoðuð eftir landshlutum sést að fækkun milli áranna 2016 og 2017 er fyrst og fremst vegna fækkunar gjaldþrotabeiðna á höfuðborgarsvæðinu (úr 877 í 594; 33%), en ef aðrir landshlutar eru teknir saman fjölgaði gjaldþrotum þar úr 149 í 154 (3%).

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK