Gervigreind getur flest

Gervigreind við framleiðslu, þjónustu og eftirlit getur verið með ýmsum …
Gervigreind við framleiðslu, þjónustu og eftirlit getur verið með ýmsum hætti.

Gervigreindartæknin er að ryðja sér til rúms og áætlað að árið 2020 verði um 70% allra fyrirtækja búin að taka gervigreind í sína þjónustu með einum eða öðrum hætti. Þetta segir Scott Soutter, vörustjóri PowerAI hjá IBM.

Á morgun, þriðjudaginn 10. apríl, heldur Scott erindi á morgunverðarfundi Origo þar sem hann fjallar um áhugaverða notkunarmöguleika gervigreindar. Scott kom m.a. að stóru verkefni þar sem rafmagnsveita Suður-Kóreu notaði PowerAI gervigreindartæknina til að vakta ástand háspennumastra. „Þar reyndist hægt að láta fjarstýrða dróna með háskerpu-upptökuvél fljúga yfir línunum og síðan greina upptökuna rafrænt. Gervigreindin gerði okkur fært að þróa hugbúnað sem kemur auga atriði sem geta bent til þess að viðgerðar eða viðhalds sé þörf, nema hvað gervigreindin er miklu nákvæmari og hraðvirkari en mannsaugað,“ segir hann. „Og dróninn getur flogið yfir rafmagnslínunum á 40 km/klst hraða, svo að hægt er að skoða miklu meira af dreifikerfinu og mun hraðar en með hefðbundnum leiðum.“

Scott segir hægt að nota gervigreind til að leysa úr verkefnum sem áður hefði verið illgerlegt að vinna með hugbúnaði. Með s.k. „deep learning“ gervigreind, sem PowerAI notar, megi ná 97-98% nákvæmni í verkefnum þar sem hefðbundin gervigreind myndi skila um 80% nákvæmni, og venjuleg forritun varla meira en 60% nákvæmni. „Lýsa má „deep learning“ þannig að tölvunni er sagt hverju hún á að áorka, og gefin gögn til að miða við, en hún verður svo sjálf að finna leiðina að markinu. Það sem þá gerist er að til verður hugbúnaður sem virkar ekki ósvipað og mannsheilinn þar sem óvæntar tengingar verða á milli ýmissa gagnabúta.“

Scott Soutter
Scott Soutter

Gallar í vöru eða gremja í röddu

Notkunarmöguleikarnir eru nánast ótæmandi. „Það má t.d. nota gervigreind til að gera sjónræna greiningu á vörum til að skima eftir göllum. Gervigreindin er þá ekki bara að meta það sem hún sér í gegnum myndavélalinsu heldur getur skoðað röntgenmyndir og myndir af ósýnilegum sviðum litrófsins, í mjög hárri upplausn, til að koma auga á mögulega galla eða veikleika,“ segir Scott. „Gervigreindin getur líka tekið við öllum þeim gögnum sem verða til við framleiðsluna og reynt að greina hvort einhvers konar þróun sé að eiga sér stað eða mynstur að koma fram, til þess ýmist að fyrirbyggja tjón eða til að ná fram meiri gæðum eða hagræðingu.“

Gervigreind getur líka hjálpað í mannlegum samskiptum. „Það er t.d. gervigreind sem gerir okkur mögulegt að þýða tungumál í rauntíma, eða sjá hvort tónn og tjáningarmáti viðskiptavinar bendir til að hann sé ánægður eða óánægður. Tæknin getur líka greint neyslumynstur þannig að sníða má tilboð og markaðsefni að hverjum og einum kaupanda.“

Gervigreindin á meira að segja erindi við íslenskar undirstöðu-atvinnugreinar á borð við sjávarútveg og ferðaþjónstu. Nefnir Scott að megi t.d. búa dróna og fjarstýrða kafbáta gervigreind svo þeir geti stýrt sér sjálfir og hjálpað við hafrannsóknir. „Í ferðaþjónustu nýtist gervigreind m.a. við að spá um hegðun ferðamanna, s.s. með því að skima umfjöllun á samfélagsmiðlum og fréttamiðlum til að sjá hvað fólki er hugleikið. Það væri hægt að hafa starfsmenn á launum við að gera einmitt þetta, en með gervigreind má skima alla miðla á rauntíma, á fjölda tungumála, og sjá strax og breytingarnar gerast og almenningsviðhorfið breytist. Er þá hægt að búa í haginn og tryggja að sú þjónusta sem ferðamennirnir þurfa og vilja sé til staðar þegar þeir loksins koma til landsins vikum, mánuðum eða árum síðar.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK